139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú er mál að ræða stöðuna á vinnumarkaðnum. Sú einkennilega staða er komin upp að allir samningar eru lausir og þá skiptir ekki máli hvort við lítum til hins almenna vinnumarkaðar eða hins opinbera. Svo vill til að hæstv. velferðarráðherra hefur um það að segja og getur svarað fyrir almenna vinnumarkaðinn en þetta eru svo tengd mál að annað verður ekki rætt nema hitt sé tekið með á þeim grunni að allir kjarasamningar eru lausir. Staðan er mjög einkennileg og allir launamenn á Íslandi eru í lausu lofti vegna þessa. Mig langar að tala hér um opinbera vinnumarkaðinn því að komið hefur í ljós að launaþróunin þar er úr takti við allt sem gerst hefur.

Við framsóknarmenn héldum ráðstefnu fyrir skömmu þar sem þessi staða var rædd og var okkur bent á að háskólamenntað fólk hefði dregist mjög aftur úr í launaþróun. Það er mjög alvarlegt mál þegar fólk er með fimm til sex ára háskólanám að baki og flest af því tekur námslán sem það skuldar svo til framtíðar. Alvarlegasti hluturinn sem kom fram á ráðstefnunni var sá að í velferðargeiranum eru skjólstæðingarnir oft með hærri ráðstöfunartekjur en háskólamenntað fagfólk. Er það mjög athugunarvert hvert við stefnum í launaþróun. Hér spilar svo inn í kjararáð sem margir falla undir en hæstv. fjármálaráðherra lagði eftirminnilega fram lagabreytingu í fyrra til að hnekkja því svo ekki sé talað um lög hæstv. forsætisráðherra fyrir nokkrum missirum um að enginn mætti hafa hærri laun en hún sjálf. Svona er staðan og kannski er ekki nema von að illa gangi að semja á almenna vinnumarkaðnum.

Alþýðusamband Íslands hefur lagt fram áætlun í kjarasamningunum sem gerir ráð fyrir að ríkið bregðist við atvinnuleysi með stórum framkvæmdum í samgöngumálum og í viðhaldi opinberra bygginga og atvinnustefnan verði byggð á hátækniþekkingu og grænum grunni. Það er því hræðilegt til þess að hugsa að í dag berast af því fréttir að Landsvirkjun sé komin langtum lengra með það en nokkurn óraði fyrir að leggja sæstreng til Evrópu. Á hverju eigum við þá að byggja atvinnutækifæri okkar ef selja á rafmagnið úr landi? Þurfum við ekki að skapa vinnu við það innan lands að fullvinna afurðir okkar, sama hvort það er rafmagn, ál eða fiskur? En þetta er gert í skjóli og með leyfi og vitund ríkisstjórnarinnar og virðist ríkisstjórnin vera hæstánægð með að láta Evrópusambandið hirða þessa auðlind af okkur með þessum hætti.

Samtök atvinnulífsins leggja hins vegar áherslu á að skapaðar verði aðstæður sem leyfi kjarasamninga til þriggja ára og með auknum fjárfestingum sé hægt að skapa fleiri störf. Samtök atvinnulífsins hafa meiri skilning á þessu en ASÍ að mínu mati því að þau vita þó það að hér þarf atvinnu til að hægt sé að hækka laun.

Það er líka einkennilegt í ljósi þess að forseti Íslands hefur nú sent Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu að allan tímann í Icesave 1, 2 og 3 voru Samtök atvinnulífsins og ASÍ meðfylgjandi því að Alþingi og þjóðin samþykktu þá samninga, vitandi að verið væri að leggja drápsklyfjar á íslenska skattgreiðendur. Og hvað yrði þá eftir í pyngju landsmanna þegar þær skuldbindingar eru komnar til fullnustu?

Þetta er líka í stíl við það sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir á heimasíðu sambandsins, með leyfi forseta:

„Ljóst má vera að veik staða íslensku krónunnar setur þróun kjaramála í mikla óvissu vegna ójafnvægis í gjaldeyrishreyfingum auk gjaldeyrishafta. Samninganefnd ASÍ hefur því lagt mikla áherslu á að samhliða afnámi gjaldeyrishaftanna verði mörkuð trúverðug leið til þess bæði að styrkja gengi krónunnar um a.m.k. 15% og jafnframt tryggja stöðugleika hennar.“

Hér er ekki verið að tala um stöðuna eins og hún er. Forseti ASÍ leggur til að við samþykkjum Icesave, að þjóðin ákveði það í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en hann gerir sér ekki grein fyrir því að ef Icesave verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu festast gjaldeyrishöftin í sessi. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að við horfum ekki fram á nýjan gjaldeyri næstu 5–10 ár, því að þótt við gengjum í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) eins og forsetinn leggur til, er ekki nærri komið að því (Forseti hringir.) að við tökum upp evruna og það gerist ekki í náinni framtíð. Aðilar vinnumarkaðarins verða því að (Forseti hringir.) hætta þessari meðvirkni og horfa skynsömum augum á framtíðina.