139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér kjarasamninga. Í þessu máli sem öðrum er uppi sérstök staða á Íslandi þar sem formaður Alþýðusambandsins, stærstu samtaka launafólks, er í hópi auðmanna landsins og vill ekki berjast fyrir þeim nauðsynlegu launahækkunum sem þörf er á. Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, flestir hverjir, vilja halda í mesta böl launafólks á Íslandi sem er verðtryggingin og hafna tillögum um alvöruleiðréttingar á skuldum heimilanna. Það er á brattann að sækja fyrir launafólk á Íslandi í svona umhverfi. Samningar eru lausir og það vantar algjörlega hvata fyrir atvinnurekendur til að semja, því lengur sem samningar eru lausir því lengri er sá tími sem atvinnurekendur þurfa ekki að greiða hærri laun. Því þarf að binda í lög afturvirkar launahækkanir sem tækju t.d. til helmings þess tíma sem kjarasamningar hafa verið lausir. Slíkt mundi hvetja báða aðila til að ljúka samningum sem fyrst og leiða til miklu meiri skilvirkni á vinnumarkaði og miklu meiri skilvirkni í kjörum launafólks.

Frú forseti. Einnig þarf að endurskoða lög um stéttarfélög, vinnudeilur og lífeyrissjóði þar sem það yrði auðveldara fyrir almenna félagsmenn að kjósa stjórnir sinna stéttarfélaga og auðveldara fyrir almenna félagsmenn að kjósa stjórnir sinna lífeyrissjóða. Það má ýta atvinnurekendum út úr stjórnum lífeyrissjóða, þeir eru þar ekki til þess að gæta hagsmuna félagsmanna. Það ber því að tryggja með miklu víðtækari hætti þennan rétt sem félagsmenn hafa. Svo virðist sem lífeyrissjóðum hafi verið misbeitt undanfarin ár og lífeyrissjóðir hafi tapað gríðarlegum peningum á áhættufjárskuldbindingum sem enn hefur ekki verið fundið út hvað eru miklar. Hér er um nýtt umhverfi fyrir launafólk að ræða og það er óásættanlegt að almennt launafólk á Íslandi skuli búa við þá afarkosti að þeirra eigin forsvarsmenn berjist ekki (Forseti hringir.) fyrir hagsmunum þeirra.