139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:41]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við búum við það að fjöldi stétta er búinn að vera samningslaus í langan tíma, sem er óásættanlegt. Hagur atvinnurekandans af því að semja, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar, er enginn. Hann hefur allt að græða til að halda óbreyttu ástandi.

Mig langar að nota tækifærið og hvetja ráðherra velferðar til að beita sér fyrir lagasetningu um lágmarkslaun þannig að allir geti lifað af launum sínum. Málin snúast ekki bara um launin því að ríkið ber einnig mikla ábyrgð þegar kemur að aukinni skattheimtu og gjaldtöku. Verðtryggð lán heimilanna hafa hækkað um 15,6 milljarða bara vegna skatta- og gjaldahækkana frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þá eru ótaldar hækkanir vegna hrunsins og áhrif þeirra á lánin og stöðu heimilanna.

Svo virðist sem heimilin og almennir launþegar eigi einir að bera allan kostnað af kreppunni. Staðan er þröng en það er ekki hægt að koma svona fram við fólk. Skaðinn er auðvitað skeður en tjóninu verður að deila jafnar á milli allra aðila.