139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna þó að hún hafi að mörgu leyti farið út og suður og tæpt hefur verið á pólitískum inngripum, Icesave og ýmsu öðru sem auðvitað má tengja almennum kjörum og umræðum um það. Það er ágætt að sú umræða fari fram. Ég geri þó athugasemd við það þegar fólk gagnrýnir stéttarfélög fyrir að taka pólitíska afstöðu því að afkoma fólks í landinu er pólitík. Hún þarf ekki að vera flokkspólitík og hún á auðvitað ekki að hindra umræðuna. Við verðum öll að taka þátt í henni af krafti og leita leiða til að við getum bætt kjör og stöðu okkar.

Komið hefur fram, og ég tek heils hugar undir það, að atvinnumálin eru stærsta velferðarmálið, þ.e. að hér verði aukin atvinna, að við getum minnkað atvinnuleysið. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Aftur á móti fullyrði ég að það sé ekki rétt að skattahækkanir hafi þau áhrif á kjörin sem nefnd voru. Skattahækkunum hefur verið beitt með ákveðnum hætti og allir pappírar sýna að jöfnuður hefur aukist við þær skattbreytingar sem gerðar hafa verið. Menn, þingmenn og aðrir, ættu að fá betri upplýsingar um að það er ekki stærsti orsakavaldurinn heldur eingöngu fyrirsláttur. Hér eru skattar ekki hærri en víðast hvar í kringum okkur og samanburðurinn er okkur hagstæður.

Ég tek það fram sem ekki hefur komið fram í umræðunni að settir hafa verið af stað þverpólitískir og þverfaglegir hópar sem eiga að vinna að atvinnumálum, atvinnuáætlun og sköpun starfa, um leið og einn hópur á að vinna að mótaðgerðum á sviði vinnumarkaðsúrræða, starfs- og endurmenntunar og starfsendurhæfingar, sem einnig var minnst á. Við bindum auðvitað miklar vonir við að þessir hópar vinni gott starf og hafa verið gefin fyrirheit um að jafnóðum og hugmyndir fæðast verði þær teknar upp í þinginu og reynt að hrinda þeim í framkvæmd. Ekki er verið að biðja um eina skýrslu í viðbót heldur aðgerðir.

Það er ekki mikill tími til að svara einstökum spurningum frá hv. málshefjanda, en varðandi jöfnun lífeyrisréttinda hefur verið stefnumál til lengri tíma að skoða með hvaða hætti hægt er að tryggja svipuð kjör þeirra sem (Forseti hringir.) þiggja lífeyri. Lagasetningar varðandi kjarasamninga hafa alltaf verið neyðarbrauð og þeim á helst ekki að beita. En öðrum spurningum verð ég að láta ósvarað þar sem tíminn er útrunninn. Ég þakka fyrir umræðuna en það er fyrst og fremst atvinnulífið og (Forseti hringir.) vinnumarkaðurinn sem munu móta kjarasamninga á næstu dögum með aðstoð ríkisins ef á þarf að halda.