139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lækkun flutningskostnaðar.

517. mál
[17:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er held ég enginn ágreiningur um það að flutningskostnaðurinn er skaðlega íþyngjandi og hann er smátt og smátt að leiða til þess að það dregur þrótt úr framleiðslustarfsemi, alla vega þar sem flutningskostnaður vegur þungt í viðkomandi rekstri og þeim mun meir sem fjær dregur hér suðvesturhorninu, kannski með þeim undantekningum sem eru þá þar sem menn hafa aðgang að góðum samgöngum eða útflutningshöfnum hið næsta sér, eins og í Vestmannaeyjum, Reyðarfirði eða Seyðisfirði með Norrænu o.s.frv.

Ég geri ekki lítið úr því. Við þekkjum það öll hygg ég, a.m.k. við þingmenn landsbyggðarinnar, mjög vel hversu tilfinnanlegt þetta er. Þetta er gjarnan það sem ber fyrst á góma á fundum þegar málefni landsbyggðarinnar eru rædd.

Það er auðvitað einn þáttur þessa máls sem er einfaldlega rétt og skylt að horfast í augu við. Með hækkandi innkaupsverði á olíuvörum fjölgar að sjálfsögðu krónunum í virðisaukaskattinum þó að reikna megi með því að salan dragist eitthvað saman á móti með hækkandi verði og/eða þetta komi þá niður á neyslu annars staðar eftir því sem menn verða áfram að kaupa sitt eldsneyti og minna af öðrum vörum. Það er því ekki hægt að gefa sér að það sé um einhvern nettótekjuauka ríkisins að ræða, því miður. En það er auðvitað heldur ekki ætlunin að þyngja skattlagninguna og önnur gjöld eru krónutölugjöld sem eru óháð þessum breytingum. Eitt af því sem hlyti að koma til skoðunar væri að taka þá einhvers konar ígildi þess tekjuauka sem aukinn virðisaukaskattur ofan á hærra innkaupsverð hefur í för með sér og endurráðstafa honum skynsamlega, því að væntanlega förum við nú ekki að breyta álagningu í almennu þrepi virðisaukaskatts, heldur fremur horfa til þeirra tekna sem þar koma. Það er meðal annars það sem ég hef í huga að láta starfshóp skoða og fara yfir hverjar væru skilvirkustu leiðirnar til að mæta áhrifunum af þessu þar sem þau eru tilfinnanlegust. Það er í mínum huga enginn vafi á því (Forseti hringir.) að það er í flutningskostnaði. Það er í olíuverðinu og það er í flutningskostnaðinum (Forseti hringir.) sem á að hafa forgang í aðgerðum ríkisvaldsins (Forseti hringir.) til að takast á við þetta ástand.