139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali.

526. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í mansalsmál. Í febrúar 2011, þ.e. fyrir mjög stuttu síðan, kom út glæný skýrsla velferðarráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála. Þar er kafli um mansalsmál og þar segir að mikill meiri hluti aðgerða í áætluninni hafi komist til framkvæmda eða sé í undirbúningi. Svo er tínt til að það séu 10 millj. kr. á fjárlögum árið 2011 í þessa áætlun og fjármagnið fari að mestu leyti í fræðslu- og útgáfustarf.

Ég vil spyrja sérstaklega út aðgerð 13 í aðgerðaáætluninni gegn mansali, þ.e. um heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna. Þar kemur fram að meta eigi hvort þörf sé á þessum heimildum varðandi mansalsmál.

Hvað varðar þessi mál í heild vil ég tína sérstaklega til að þrír aðilar hafa lagt áherslu á að þessi mál verði skoðuð. Það er í fyrsta lagi ríkislögreglustjórinn sem hefur gert greiningar á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Það hafa komið fram greiningar og skýrslur þrisvar sinnum. Í öllum þeim skýrslum hefur ávallt verið bent á að heimildir skorti til svokallaðra forvirkra rannsókna.

Ég vil líka koma því sérstaklega á framfæri að Ríkisendurskoðun gerði skýrslu árið 2007 þar sem bent var á að slíkar heimildir vantaði og fram kom í skýrslu sem bar heitið Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna. Stjórnsýsluúttekt. Svo er það þriðja skýrslan sem kemur inn á þessi mál, þ.e. aðgerðaáætlun gegn mansali. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hvað stendur í aðgerð 13:

„Í tengslum við rannsókn og kortlagningu mansalsmála hér á landi og tengsl við erlenda og skipulagða brotastarfsemi verði þörf lögreglu fyrir heimildir til forvirkra rannsókna metin. Með slíkum heimildum væri unnt að kortleggja betur af hálfu lögreglu umfang starfseminnar og umsvif einstakra aðila og skapa um leið betri grundvöll undir að sækja þá aðila til saka sem skipuleggja og eru á bak við skipulagða glæpastarfsemi á borð við mansal. Þá er lögð áhersla á að lögregla nýti til fulls rannsóknarheimildir sem þegar eru fyrir hendi og er beitt meðal annars við rannsókn fíkniefnabrota.“

Hér stendur að það sé á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins, sem er nú orðið innanríkisráðuneyti, að skoða þetta mál.

Af því að ég veit að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, er áhugamaður um að taka á jafnréttismálum og mansalsmálum, þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji koma til greina að skoða það að taka upp rannsóknarheimildir til lögreglu, forvirkar rannsóknarheimildir, en sú er hér stendur flytur einmitt mál af því tagi í þinginu.