139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

þróun fóstureyðinga.

527. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. velferðarráðherra um hver þróun fóstureyðinga hefur verið hér á landi síðustu 10 árin og hver þróunin sé miðað við önnur Norðurlandaríki. Ég spyr vegna þess að í glænýrri skýrslu frá velferðarráðuneytinu frá því í febrúar 2011 — hún heitir Skýrsla velferðarráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála og var lögð fram á jafnréttisþingi 2011 — er kafli á bls. 61 sem ber nafnið „Fóstureyðingar“. Þar kemur fram að frá árinu 1975 er kveðið á um að heimilt sé að framkvæma fóstureyðingar af læknisfræðilegum og félagslegum ástæðum. Ég vil taka fram að ég er mikill stuðningsmaður þess að konur hafi það val en þarna kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu hefur fóstureyðingum farið fjölgandi hér á landi frá árinu 2004. Þeim hafði fækkað heldur á árunum þar á undan. Þær voru fæstar árið 1992, eða 658 talsins, síðan voru þær frekar fáar árið 2005, 868, en árið 2009 voru þær 971. Fóstureyðingum fjölgaði því á árunum 2005–2009 um 12%, sem mér finnst vera frekar mikil aukning. Þess vegna langar mig aðeins að heyra frá hæstv. velferðarráðherra hverju það sæti, hvort hæstv. ráðherra hafi einhverjar skýringar á því.

Það kemur líka fram í skýrslunni að á árunum 2007–2009 voru flestar fóstureyðingar gerðar hjá konum á aldrinum 20–29 ára eða um helmingur fóstureyðinga. Í aldurshópnum 15 ára og yngri voru fimm fóstureyðingar gerðar árið 2007, engin árið 2008 og ein árið 2009. Svo kemur jafnframt fram að flestar fóstureyðingar voru framkvæmdar fyrir 9. viku meðgöngu og voru flestar á gerðar á félagslegum forsendum. Það er því alveg greinilegt miðað við það að þrátt fyrir að fóstureyðingum hafi fjölgað um 12% frá 2005 fóru ekki allra yngstu stúlkurnar í fóstureyðingu, það voru aðrir aldurshópar. Þess vegna vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telji ástæðu til að grípa til einhverra aðgerða af því að fóstureyðingum hefur farið fjölgandi. Er þörf á frekari umræðu eða hefur hæstv. ráðherra í hyggju að grípa til einhverra aðgerða? Miðað við þau línurit sem fram koma í skýrslunni, eitt er á bls. 94, hefur fóstureyðingum fjölgað talsvert á síðustu árum og kemur það þeirri er hér stendur satt best að segja frekar (Forseti hringir.) á óvart.