139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

vottunarkerfi um jafnrétti á vinnumarkaði.

528. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr enn á ný út í upplýsingar sem koma fram í skýrslu hæstv. velferðarráðherra, um stöðu og þróun jafnréttismála, sem var gefin út í þessum mánuði.

Þar er kafli á bls. 27 sem heitir „Kynbundinn launamunur“. Og fyrirspurn mín, í tilefni af því sem þar kemur fram, hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

Hvenær lýkur gerð staðals sem nýst getur sem undirstaða vottunar um jafnrétti á vinnumarkaði hvað varðar laun, ráðningar og uppsagnir, samanber viljayfirlýsingu félags- og tryggingamálaráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 2008?

Í skýrslunni frá hæstv. ráðherra kemur fram að rannsóknir benda enn til að talsverður kynbundinn launamunur sé á vinnumarkaði og eitthvað gengur hægt að eiga við hann, því miður. Þar kemur líka fram að samkvæmt skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála frá því í janúar 2009 er bent á þrjár leiðir sem hægt er að nýta til að minnka kynbundinn launamun.

Í fyrsta lagi er þar bent á starfsmatsleið svokallaða, sem sú er hér stendur vann mikið að á sínum tíma sem formaður í svokallaðri starfsmatsnefnd. Reykjavíkurborg hefur nýtt sér þá leið og náð góðum árangri. Einnig er talað um svokallaða vottunarleið, sem ég spyr hér út í, þ.e. að hægt sé að koma sér upp einhvers konar vottunarkerfi sem tryggi jafnréttismálsmeðferð varðandi laun. Þriðja atriðið er að framkvæmdar verðar reglubundnar skoðanir á launamun allra starfsmanna hverrar stofnunar eða sveitarfélags.

Á sínum tíma var gerður samningur á milli hæstv. ráðherra þess tíma, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um að koma á staðli sem gæti nýst til þess að framkvæma svona vottun.

Í skýrslunni, sem er gefin út núna í febrúar, kemur fram að ekki liggur enn fyrir hvenær lokið verði við gerð þessa staðals. Nú eru liðin einhver ár síðan þannig að ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hvað tefur? Er þetta svona flókið eða erum við ekki að setja nógu mikinn kraft í þetta? Mér skilst að gerður hafi verið einhver samningur við Staðlaráð Íslands, það var gert 2008, og komið hafi verið á fót svokallaðri tækninefnd sem vinnur að gerð þessa staðals. Hún er bara enn að störfum, sú tækninefnd, og liggur ekkert fyrir hvenær hún lýkur störfum.

Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort ekki sé hægt að ýta svolítið vel á eftir þessu máli af því að við þurfum auðvitað að minnka þennan kynbundna launamun eins hratt og hægt er. Þetta gengur óskaplega hægt og við verðum greinilega alltaf að vera að ýta á eftir.