139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

vottunarkerfi um jafnrétti á vinnumarkaði.

528. mál
[17:32]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í byrjun þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir fyrirspurnina þar sem ég fæ þá tækifæri hér í þingsal til að upplýsa um stöðu þessa mikilvæga máls. Eins og málshefjandi kemur með sem aðalástæðu spurningarinnar er kynbundinn launamunur einn af dökku blettunum í jafnréttismálunum, eitt af því sem hefur tekist afar illa að vinna á með varanlegum hætti og mikilvægt að við leitum allra úrræða til að gera betur hvað það varðar, hafandi verið að skora mjög hátt í jafnréttismálum á öðrum kvörðum.

Til upprifjunar var sérstakt bráðabirgðaákvæði samþykkt um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í mars 2008 og félags- og tryggingamálaráðherra var ætlað að sjá til þess að þróað væri sérstakt vottunarkerfi, eins og hér hefur komið fram, þar sem á að framkvæma stefnu í launajafnrétti og framkvæma stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Átti verkefninu að vera lokið 1. janúar 2010 og var þá gert ráð fyrir að lögin um jafnrétti kynja yrðu endurskoðuð.

Í febrúar sama ár höfðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gert bókun við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þar sem áhersla var lögð á samvinnu aðilanna í jafnréttismálum á samningstímanum. Var við það miðað að vinnu við að þróa ferli vegna vottunar á framkvæmd jafnréttisstefnu fyrirtækja yrði lokið þá, sem sagt í loks ársins 2009, eins og áður sagði.

Haustið 2008 hófust viðræður milli fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd bráðabirgðaákvæðisins og bókunarinnar. Samkomulag varð um að fela Staðlaráði Íslands umsjón með gerð staðals um framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafnan möguleika kynjanna til starfs og starfsþróunar sem nýst gæti sem undirstaða vottunar. Var undirrituð viljayfirlýsing þess efnis 24. október 2008, svo að ég fari aðeins yfir söguna.

Þegar var hafist handa við gerð staðalsins. Ferli það sem vinnan að gerð staðalsins fer eftir lýtur reglum sem gilda um staðlagerð í Evrópu og Staðlaráð er bundið af, þetta eru mjög formlegar reglur af því að farin er sú leið að leita til Staðlaráðsins. Liður í því er að öllum sem áhuga kunna að hafa er boðið að taka þátt í vinnu við gerð staðalsins og mynda þeir svokallaða tækninefnd, eins og hér hefur verið minnst á, sem stýrir vinnunni og þarf að ná samkomulagi um alla þætti staðalsins.

Stofnfundur tækninefndar um jafnlaunakerfi var haldinn 26. nóvember 2008 og eftirtaldir aðilar voru þátttakendur í stofnfundinum: Félags- og tryggingamálaráðuneytið á þeim tíma, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið og starfsmannaskrifstofan, Samband íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kvenréttindafélag Íslands, Félag kvenna í atvinnurekstri og ParX viðskiptaráðgjöf vann með þeim varðandi staðalinn.

Þess ber að geta að fulltrúar Staðlaráðs tóku þegar í upphafi fram að tímaramminn sem verkinu var settur væri ekki raunhæfur. Í alþjóðlegu samstarfi er oftast miðað við að það taki a.m.k. þrjú ár frá því að vinna við gerð staðals hefst þar til hann er gefinn út enda þarf að ná samkomulagi milli allra þeirra ólíku hagsmunahópa sem að starfinu þurfa að koma og tekur slíkt mikinn tíma og yfirlegu. Að auki þarf frumvarp að staðli að vera auglýst til almennrar umsagnar í a.m.k. tvo mánuði og að því loknu þarf að taka efnislega afstöðu til allra athugasemda sem berast á umsagnartímanum og svara þeim með rökstuðningi.

Staða verkefnisins nú er sú að innan tækninefndarinnar hefur náðst samkomulag um efnisatriði staðalsins og texta hans þótt enn sé skoðanamunur um orðalag. Vinna við að semja nauðsynlega viðauka með skýringum, leiðbeiningum og ítarefni er að hefjast. Vonir standa til að frumvarp að staðli verði tilbúið til auglýsingar á fyrri hluta ársins, þ.e. þessa árs. Gangi það eftir ætti staðallinn að geta verið tilbúinn fyrir árslok 2011. Unnið hefur verið ötullega að verkefninu enda þótt ekki hafi náðst að halda setta tímafresti. Í því sambandi þótti þeim sem komu að málinu meira virði að vanda vel til verksins og freista þess að fá nothæfan staðal sem er til þess fallinn að koma á auknu jafnrétti á vinnumarkaði og þar á meðal að koma í veg fyrir kynbundinn launamun sem hér er svo mjög til umræðu. Staðlaráð var því fengið til verksins þrátt fyrir athugasemdir þeirra um að tímafrestir yrðu þá líklega ekki haldnir. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að vinnan hefur verið í fullum gangi en þar má nefna að tækninefndin hefur haldið 18 fundi og smærri vinnuhópar innan hennar hafa haldið 25 fundi.

Kynbundinn launamunur er eitthvað sem við viljum ekki sjá á innlendum vinnumarkaði og bind ég miklar vonir við að þarna geti orðið til tæki sem hjálpar okkur að eyða þeim ósanngjarna mun sem hefur viðgengist í mati á verðmæti vinnuframlags kvenna og karla. Það ber einnig að geta þess hér að m.a. er gert ráð fyrir, í tillögu að þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, sem nú er til umfjöllunar í hv. félags- og tryggingamálanefnd, (Forseti hringir.) að lokið verði við gerð staðalsins á gildistíma áætlunarinnar, verði hún samþykkt, og honum fylgt eftir með markvissri fræðslu um innleiðingu hans.