139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

vottunarkerfi um jafnrétti á vinnumarkaði.

528. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Miðað við þessar skýringar hefur Alþingi verið fullbjartsýnt þegar það samþykkti bráðabirgðaákvæði IV í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla af því að þá átti þetta vottunarkerfi að vera tilbúið 1. janúar 2010. En ég heyri að hæstv. ráðherra segir að Staðlaráð hafi komið því á framfæri að tímaramminn hafi verið allt of knappur, það tæki um þrjú ár að koma svona staðli í gagnið af því að allir þurfi að vera sammála um allt. Ég held að hæstv. ráðherra hafi talið upp um ellefu aðila sem sitja þarna í þessari tækninefnd þannig að ef þetta er allt rétt er sjálfsagt talsvert torf að koma þessu öllu saman.

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér í því að staðallinn ætti að vera kominn í gagnið í árslok. Ef það stenst er það rétt með þessi þrjú ár af því samningurinn við Staðlaráð var gerður í desember 2008 og í árslok er desember 2011. Ég tel mjög mikilvægt að við reynum að ýta á eftir öllum þeim aðgerðum sem hægt er að nota til að minnka kynbundinn launamun. Það er óásættanlegt hvað lítið gengur í þeim málum og maður hefur á tilfinningunni að alltaf sé verið að berjast við vindmyllur í þessu máli. Ég brýni hæstv. velferðarráðherra að bretta upp ermar og ýta á eftir því að þetta mál komist í höfn eins og aðrar aðferðir sem tiltækar eru til að minnka launamun kynjanna. Það er mjög brýnt að þeim launamun verði útrýmt.