139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Umhverfisráðherra staðfestir verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og ekki formaður umhverfisnefndar. Það er auðvitað umhverfisráðherrans að svara fyrir sig og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég vil segja almennt um þetta mál í fyrsta lagi að ég er sammála hæstv. umhverfisráðherra um að í þjóðgörðum eigi að leggja náttúruvernd til grundvallar. Síðan koma öll önnur sjónarmið. Þess vegna er þjóðgarður þjóðgarður.

Í öðru lagi eru lög og reglur mjög mikilvæg tæki til að vernda og efla þjóðgarða og önnur náttúruverðmæti, en það sem skiptir þó allra mestu er að þjóðgarðurinn og náttúran lifi í hugum manna, að hvert náttúrusvæði eigi sér sem stærstan hóp af fólki sem þekkir það, þykir vænt um það og er tilbúið að kosta nokkru til til að verja það þegar upp er staðið.

Við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson komum saman inn á þingið fyrir átta árum og eitt af fyrstu verkefnum okkar var að koma á sáttum í rjúpnaveiðideilu, m.a. vegna þess að rjúpnaveiðimenn eru líka náttúruverndarmenn, þeir eiga líka sinn rétt og þeir eru mikilvægir bandamenn til að vernda þann fugl sem þeir sækjast eftir að skjóta og nytja og þá náttúru sem hann lifir í.

Í þriðja lagi hefur hver maður sína aðferð til að tengjast náttúrunni. Sumir ganga, sumir aka, sumir hjóla, sumir fljúga, ég fer á skíðum upp um fjöll og firnindi og það er enginn betri náttúruverndarmaður en annar af því að hann fari á öðrum tækjum. Það verður að taka tillit til allra þeirra sem vilja njóta náttúrunnar, en hins vegar geta aðferðir spillt náttúrunni mismikið og sumar aðferðir fara ekki saman. Það fer ekki saman göngumenn og veiðar, það fer ekki saman hestar og mótorhjól.

Í fjórða lagi ætla ég að skoða rök umhverfisráðherra og stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs með þetta að leiðarljósi. Umhverfisráðherra hefur að vísu takmarkað svigrúm í þessum efnum. Ég tek að lokum undir, (Forseti hringir.) forseti, ég er fljótur að því, það sem umhverfisráðherra segir um þetta mál í greinargerð sem allir hafa auðvitað lesið sem komið hafa að þessari (Forseti hringir.) umræðu, að það sé ástæða til þess, með leyfi forseta, „að stjórn þjóðgarðsins skoði frekar þann kafla sem lýtur að samgöngum í þjóðgarðinum, þar sem þar hafa komið fram ítarlegar og rökstuddar tillögur að breytingum, sem kalla á frekari umræðu og ítarlegri yfirferð“.