139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og kunnugt er hefur stjórn Byggðastofnunar ákveðið að samþykkja ekki kaup Lotnu á fyrirtækinu Eyrarodda á Flateyri sem varð gjaldþrota fyrr í vetur. Ástæðan mun einkum vera viðskiptasaga þeirra einstaklinga sem standa að Lotnu. Engu að síður hafa eigendur Lotnu fengið afhenta lykla að vinnsluhúsum Eyrarodda og er helst að skilja á fréttum að þeir séu þegar teknir til starfa í fyrirtækinu og þar með hafa verið vaktar upp vonir meðal íbúa á Flateyri sem óttast að sjálfsögðu um afkomu sína og framtíðaratvinnu.

Allt þetta mál er með miklum ólíkindum en verst er þó að fylgjast með því hvernig íbúum á Flateyri, fólkinu sem á alla afkomu sína undir því hvernig þessu máli farnast, hefur verið kastað milli vonar og ótta. Þetta sama fólk hefur á fáum árum hvað eftir annað mátt horfa upp á atvinnumissi og óvissar framtíðarhorfur. Fyrst seldi útgerðarmaðurinn og fór með allar aflaheimildir af staðnum. Fyrirtækið sem þá tók við varð gjaldþrota og nú er hafinn þessi ömurlegi darraðardans um framtíð fiskvinnslu og útgerðar á staðnum.

Ég hef skilning á afstöðu Byggðastofnunar í málinu í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið, en ég skil líka vel vonbrigði og sársauka heimamanna sem vita ekki sitt rjúkandi ráð og eru engu nær um framtíð sína og afkomu. Það er ljótur leikur að nota fólk sem lifandi skjöld, nýta sér ótta og óöryggi fólks til að fá sitt fram eins og mér finnst örla á í þessu máli. Það er ömurlegt að heyra og lesa í fjölmiðlum fullyrðingar um að þingmenn í kjördæminu hafi fyrir skemmstu gefið loforð um að málið væri í höfn. Slíkt er ábyrgðarhluti og ekki í verkahring þingmanna. Það væri fróðlegt að fá upplýst til hvaða þingmanna er þarna verið að vísa og hvaða umboð þeir hinir sömu (Forseti hringir.) telja sig hafa haft. Þá mætti benda þeim á að lesa rannsóknarskýrslu Alþingis og það sem þar kemur fram um valdmörk og verkaskiptingu stjórnskipunarinnar.