139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir spurningar hans. Ég vil reyndar taka fram í upphafi að innan allsherjarnefndar var full samstaða um málið og eindrægni að koma þessu fram og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að þetta snýst fyrst og síðast um eftirlitshlutverk þingsins. Það varð niðurstaða í skýrslu sem barst fyrir Alþingi um eftirlitshlutverkið og fleira að þetta væri best komið í höndum einnar nefndar. Þar fæst samhæfing og samræming í vinnubrögðum og þar fram eftir götunum. Ég er stuðningsmaður þess og þess rökstuðnings sem kemur fram fyrir því í skýrslunni og frumvarpsdrög sem liggja fyrir að þingsköpum gera ráð fyrir því og þá er ég bara að hugsa um samhæfinguna og fleira.

Þó er alls ekki loku fyrir það skotið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem hefur yfirumsjón með og hefur þetta rannsóknarhlutverk með höndum, geti leitað umsagnar annarra nefnda þingsins í störfum sínum. Það tel ég mjög æskilegt, það væri hægt að samræma það. En ég hygg að vinnan verði faglegri ef einni sérnefnd er falið þetta hlutverk fremur en að dreifa því á aðrar nefndir sem þurfa þá ef til vill í sífellu að finna upp hjólið ef ég má orða það þannig.