139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veit að það er ágætissátt um þetta og ég vona að það verði alla leið. Ég leyfi mér hins vegar að velta þessum hlutum upp. Vegna umræðna um þingskapalögin er ég mikið hugsi út af þeirri ætlan og þeirri röksemd að þetta sé best samhæft í einni nefnd. Segjum bara að hv. viðskiptanefnd komist að þeirri niðurstöðu að skoða þurfi eitthvað og ýmis mál komi þar upp, þá yrði að nálgast samhæfinguna og samræminguna með starfsmönnum þingsins. Hvernig mundu menn setja slíkt af stað?

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að við vitum að í þingnefndum tekur ákveðinn tíma að komast inn í mál. Þetta er oft gríðarlega mikið efni sem menn þurfa að kynna sér í viðkomandi málaflokki. Málaflokkarnir eru mjög ólíkir. Við erum að fjalla um umhverfismál, heilbrigðismál, viðskiptamál, sjávarútvegsmál og þau eru mjög ólík. Ég hef áhyggjur af því að það sé ekki eins skilvirkt og gæti verið þegar við erum með eina nefnd sem á að hafa allt undir, allar rannsóknir á öllu. Ég velti því bara upp og bið hv. þingnefnd að fara aðeins betur yfir það hvort það sé ekki skynsamlegri nálgun að við, þessir fáu þingmenn sem hér eru, því að við erum alltaf að bera okkur saman við þjóðþing sem eru margfalt fjölmennari, bæði þingmenn og starfslið, að það fólk sem þekkir best til í hverjum málaflokki hafi það hlutverk og taki ákvörðun og leggi upp eftir ákveðinni forskrift rannsóknir í einstökum málum sem heyra undir ákveðin svið í stað þess að láta allsherjarnefnd eða einhverja sambærilega nefnd vera með allt slíkt undir. Það held ég að yrði ekki jafnskilvirkt eða skynsamlegt.