139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það varð niðurstaða allsherjarnefndar til bráðabirgða að fela allsherjarnefnd þetta hlutverk.

Þessi spurning sem hér er sett fram hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag er auðvitað góð og gegn og ég hygg að hún eigi að koma til umræðu þegar við fjöllum um breytingar á þingsköpunum, þegar slíkt frumvarp kemur fyrir þingið.

Ég nefndi ákveðin rök fyrir því að það væri ein nefnd sem fjallaði um þetta og vísaði þar til þeirrar skýrslu sem liggur fyrir Alþingi.

Ég vil líka vekja athygli á öðrum þætti í þessu, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, að slík skýrslubeiðni getur varðað mörg málasvið. Ef við horfum einungis á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá var henni fátt óviðkomandi ef ég má orða það þannig. Hún fjallaði um mjög víðfeðmt svið efnahagsmála, bankamála og fleiri mála. Og miðað við að vera með eina nefnd í gangi, að breyttum þingsköpum, hefði væntanlega þurft að setja málaflokkana, það rannsóknarefni sem var undir, til margra nefnda. Þetta þarf að skoða vel og vandlega þegar frumvarp að þingsköpum kemur fram. Þetta er alveg skoðunarverð spurning en ég held að rökin að mínu mati séu meiri fyrir því að vera með eina nefnd en að dreifa því á allar nefndir þingsins.