139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek svo sannarlega undir orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um að frumvarpið var til fyrirmyndar unnið sem sést best á því að nefndin leggur til sárafáar breytingar. Og ekki bara var frumvarpið vel unnið heldur líka allur undirbúningurinn að því, enn fremur var skýrslan og vinnan öll Alþingi til sóma. Það verð ég að segja. Mér láðist að koma þessu að í ræðu minni en þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til þess.

Í framsöguræðu minni um skýrslu þingmannanefndarinnar minnir mig að ég hafi lagt til að þingsköpunum yrði breytt að því leyti að þessari stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd yrði komið á fót strax á haustþingi, þegar í október sl. Mál skipuðust með ýmsum hætti þannig að menn reiknuðu væntanlega með því að þingskapafrumvarpið færi fyrr í gegn, en sú varð ekki raunin. Þingskapafrumvarpið sætti meiri gagnrýni en menn hugsanlega reiknuðu með og því leggur allsherjarnefnd það núna til að fela allsherjarnefnd þetta hlutverk. Þetta er komið til 2. umr. og ég tel þá lausn gefa alveg sömu niðurstöðu og sérstök nefnd og sérstök breyting á lögum um þingsköp þannig að ég held að við séum með sömu niðurstöðu. Ég vil bara taka fram að ég lagði til í haust í framsögunni að þingsköpum yrði bara breytt að því leyti að þessari nefnd yrði komið á fót.