139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera hárrétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta sé ekki alveg skýrt í frumvarpinu. Þarna er um að ræða samspil milli tveggja þingmála, annars vegar þess sem hér er til umræðu og hins vegar frumvarps um breytingar á þingsköpum, sem ekki er komið fram, þar sem fjallað er um hlutverk eftirlitsnefndar.

Í 1. gr. þessa frumvarps er gert ráð fyrir að frumkvæðið geti komið úr tveimur áttum, annars vegar frá eftirlitsnefndinni — ef ég lít á 2. mgr. 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ef tillaga um skipan rannsóknarnefndar kemur ekki frá þeirri þingnefnd sem fer með eftirlit Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu skal vísa henni til þeirrar nefndar til athugunar“ o.s.frv.

Í rauninni eru leiðirnar því tvær, annaðhvort er um það að ræða að eftirlitsnefndin sjálf geti haft frumkvæði að því að flytja þingmál um að setja af stað rannsókn eða tillaga komið frá öðrum um að mál gangi þá til eftirlitsnefndarinnar milli 1. og 2. umr. Ef ég les þessa frumvarpsgrein eru tvær leiðir þarna fyrir hendi.

Ég lýsi mig reiðubúinn til að skoða þetta og umorða hugsanlega í meðförum allsherjarnefndar ef það mætti verða til þess að tekið verði fyrir allan vafa um hvernig beri að túlka þetta ákvæði. En ég hafði fyrst og fremst séð það fyrir mér að frumkvæði að einstökum rannsóknum kæmi frá öðrum, eftir atvikum fagnefndum þings á viðkomandi sviði, einstökum þingmönnum sem hefðu sérstakan áhuga eða sérstaka þekkingu á einhverjum málaflokkum, en þessi nefnd, eftirlitsnefndin, hefði fyrst og fremst samræmingarhlutverki að gegna þannig að rannsóknartillögur færu allar í sambærilegan farveg þegar umræðu á þinginu væri lokið.