139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[16:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason sagði áðan að hann væri sammála lögskýringum hv. þm. Birgis Ármannssonar sem sagði skýrt að það sem sneri fyrst að hv. allsherjarnefnd væri formið, að hv. þingnefnd sérhæfði sig í forminu. Þegar menn eru að tala um rannsóknir, og ég fór hér yfir nokkur dæmi, ætti frumkvæðið, vinnan og uppleggið á rannsókninni að koma frá hv. fagnefnd. Mér fannst ekki alveg jafnskýrt í þessu andsvari hvort þetta væri túlkun hv. þm. Atla Gíslasonar eins og ég vonaðist til að væri í ræðu hans áðan. Það sem tengist þessu máli beint, eins og hefur komið fram í umræðunni, er að menn eru með þingskapafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir sérstakri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Gefum okkur það sem eru líkur á, að frumvarpið verði að lögum og við verðum með sérstaka þingnefnd, og þá spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að þessu verði eins fyrir komið fyrir og eftir með stjórnskipunar- og eftirlitsþáttinn og síðan nokkra aðra þætti. Sér hann samt sem áður málin með þeim hætti að fagnefndirnar mundu vinna að undirbúningi mála og vinna að rannsóknum, síðan væri sú nefnd bara með þennan formlega þátt? Eða sér hv. þingmaður þetta fyrir sér öðruvísi ef þingskapafrumvarpið nær fram að ganga? Það er spurning mín. Ég gat ekki skilið annað á hv. þingmanni en að hann væri sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni og mér í því að vinnan við rannsóknirnar hljóti að vera í faglegu nefndunum þar sem þekkingin er en formið hjá hv. (Forseti hringir.) allsherjarnefnd.