139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni, nr. 41/2007, með síðari breytingum, og um brottfall laga um Lýðheilsustöð, nr. 18/2003, vegna stofnunar nýs embættis landlæknis og lýðheilsu.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund eins og fram kemur í nefndaráliti bæði meiri og minni hluta Guðmund Einarsson, Guðríði Þorsteinsdóttur, Áslaugu Einarsdóttur og Unu Björk Ómarsdóttur frá velferðarráðuneyti, Geir Gunnlaugsson landlækni og Harald Briem, staðgengil landlæknis, Margréti Björnsdóttur, forstjóra Lýðheilsustöðvar, Sæmund Runólfsson frá áfengis- og vímuvarnaráði, Ingu B. Árnadóttur frá tannverndarráði, Kristin Tómasson frá slysavarnaráði og Guðlaugu B. Guðjónsdóttur frá tóbaksvarnaráði, Ingu Þórsdóttur frá manneldisráði og Stefán Aðalsteinsson frá BHM.

Þá bárust nefndinni umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, tóbaksvarnaráði, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Tryggingastofnun, svæðisskrifstofum málefna fatlaðra á Vestfjörðum og Suðurlandi, Kvenfélagasambandi Íslands, Samtökum skólamanna um bindindisfræðslu, Lýðheilsustöð, landlækni, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Hjartavernd, Félagi um lýðheilsu, Prestafélagi Íslands, Brautinni – bindindisfélagi ökumanna, Bandalagi íslenskra skáta, sóttvarnalækni, Félagi lýðheilsufræðinga, áfengis- og vímuvarnaráði, manneldisráði, Lyfjastofnun, Hagstofu Íslands, Læknafélagi Íslands, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Bandalagi háskólamanna og samstarfsráði um forvarnir.

Það er ljóst, frú forseti, að málið hefur snert marga miðað við þær umsagnir sem bárust.

Minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega að ekki hafi verið skoðað í fyrsta lagi hver fjárhagslegur ávinningur væri að slíkri sameiningu. Sú staðhæfing að ekki hafi eingöngu verið horft á mögulegan sparnað af sameiningu heldur að með stofnun nýs embættis yrði það frekar í stakk búið til að mæta hugsanlegum sparnaðarkröfum í framtíðinni en slík staðhæfing er vart boðleg við þessar aðstæður. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er gert ráð fyrir eðlilegri sparnaðarkröfu á nýju stofnunina og sagt að stofnunin verði innan þeirra fjárheimilda. Fram kemur hins vegar samkvæmt athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að val heilbrigðisráðuneytis, nú velferðarráðuneytis, á húsnæði fyrir hina nýju stofnun kunni að hafa í för með sér að leigja þurfi meira húsnæði en þörf er á samkvæmt mati og að leiguverð geti orðið töluvert hærra en á því húsnæði sem hagstæðast þótti í útboði. Á tímum sparnaðar hlýtur það að vekja eftirtekt að ráðuneytið velji að taka annað og dýrara húsnæði á leigu en það sem þótti hagstæðast samkvæmt útboði og hvergi er í raun skýringar að finna á því. Jafnframt kemur fram að 17 ár eru eftir af samningi vegna núverandi húsnæðis landlæknisembættisins og er sagt að hin nýja stofnun geti hugsanlega endurleigt húsnæðið og líklegt sé að leiguverðið verði lægra en núverandi greiðslur til eigenda þess.

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í hvort það hafi verið skynsamlegt eða ekki að gera 25 ára leigusamning um húsnæði fyrir landlæknisembættið á sínum tíma. Ég tel þann tíma heldur langan fyrir slíka stofnun almennt, hvað þá leigutímann. En með þessu er ekki farið vel með peninga. Í fyrsta lagi er húsnæði tekið á leigu sem er hugsanlega stærra en þörf er á. Ekki er vitað hvort eða hvernig verður hægt að leigja húsnæðið en 17 ár eru eftir af leigusamningnum. Síðan er gert því skóna að aðalvandamálið sé að slíkur samningur hafi verið gerður. Frú forseti, umræðan er gjörsamlega óásættanleg. Hér liggur fyrir kalt mat fjármálaráðuneytisins. Ljóst er að húsnæðiskostnaðurinn einn gæti reynst þessari nýju stofnun erfiður.

Frú forseti. Frumvarpinu er ætlað að sameina landlæknisembættið og Lýðheilsustöð í eitt embætti, embætti landlæknis og lýðheilsu, sem ætlað er að vinna að eflingu lýðheilsu og tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar. Markmiðið er eins og segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.“

Frú forseti. Enginn getur mælt í mót markmiði 1. gr. Hins vegar hefur aðdragandi þessa frumvarps líka verið ræddur hér. Í ljós hefur komið að 26. ágúst 2009 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, nefnd undir forustu Stefáns Ólafssonar sem var ætlað að leggja fram tillögur um breytta skipan stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í nóvember 2009 og var lokaskýrslu síðan skilað til þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, í janúar 2010. Þessi umrædda skýrsla hefur aldrei verið kynnt í heilbrigðisnefnd, hvað þá aðrar tillögur um sameiningar stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði. Ég ítreka að þessi skýrsla hefur aldrei verið kynnt eða rædd í heilbrigðisnefnd eða aðrar tillögur um sameiningar stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði. Svo virðist, frú forseti, sem umrædd skýrsla hafi heldur ekki fengið almenna umræðu innan faghópa heilbrigðisstofnana annarra en hugsanlega landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar. Mætti því ætla að skýrslan væri ekki traustur grunnur til að byggja þetta frumvarp á.

Það hlýtur að vekja athygli og vera umhugsunarvert af hverju skýrsla sem hæstv. heilbrigðisráðherrar telja að eigi að leggja til grundvallar sameiningu stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði skuli aldrei hafa verið kynnt af þeim tveimur hæstv. ráðherrum eða í það minnsta öðrum þeirra eða rædd í heilbrigðisnefnd frá því að skýrslan var afgreidd í lokamynd. Maður veltir fyrir sér, frú forseti, hvað sé í skýrslunni sem ekki sé þess virði að heilbrigðisnefnd ræði hana og skoði. Voru kannski aðrar tillögur um sameiningar sem ekki hugnuðust mönnum akkúrat á því augnabliki sem farið var að vinna umrætt frumvarp?

Eins og formaður heilbrigðisnefndar, hv. þm. Þuríður Backman, sagði áðan þá skipaði hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, undirbúningshóp á vegum ráðuneytisins 1. mars 2010 til að hrinda í framkvæmd hluta af tillögum skýrslunnar, þ.e. þeim hluta er sneri að sameiningu landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar. Verkstjórnin var falin settum forstjóra Lýðheilsustöðvar, Margréti Björnsdóttur, og landlækni, Geir Gunnlaugssyni. Það er því beinlínis rangt, frú forseti, sem haldið hefur verið fram í ræðustól Alþingis í umræðu um þetta mál, að sameiningin sé fram komin vegna óska starfsmanna þessara tveggja stofnana. Það er rangt vegna þess að það var hæstv. þáverandi ráðherra sem skipaði undirbúningshóp og fól forstjórum þessara stofnana verkstjórnina, svo að því sé til haga haldið.

Að gerð og vinnu frumvarpsins sem hófst í mars í fyrra komu heilbrigðisráðuneytið, landlæknir og forstjóri Lýðheilsustöðvar. Starfsmenn beggja stofnana fengu tækifæri til að koma með tillögur og athugasemdir og það er vel. Það er vel, frú forseti, þegar stofnanir eru sameinaðar að starfsmönnum sé gefið tækifæri til að koma með hugmyndir og tillögur. Væntanlega hafa forstjórarnir tveir sem höfðu verkstjórnina með höndum tekið tillit til og farið eftir þeim tillögum og athugasemdum sem starfsmenn stofnananna tveggja lögðu fram. En það breytir ekki því að það var þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, sem skipaði undirbúningshópinn til að hrinda í framkvæmd hluta af þeim tillögum sem í umræddri skýrslu voru, aðeins hluta þeirra. Ég ítreka enn, frú forseti, það er merkilegt að heilbrigðisnefnd þingsins skuli ekki hafa gefist tækifæri til að fara yfir skýrsluna, ræða hana sín á milli og velta upp fleiri möguleikum til sameiningar stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði.

Frú forseti. Hið nýja embætti, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, mun taka við öllum verkefnum sem landlækni og Lýðheilsustöð eru falin samkvæmt núgildandi löggjöf. Minni hlutinn telur að í frumvarpi þessu hefði verið nauðsynlegt að leggja mun ríkari áherslu á eftirlitsþátt stofnunarinnar og hvernig hann og aðrar stjórnsýslustofnanir skarast á heilbrigðissviði. Það er mat minni hlutans að sá þáttur þurfi aukna athygli bæði nú og í náinni framtíð. Þar má nefna að upplýsingar um starfsemina eru t.d. ekki samræmdar á milli heilbrigðisstofnana. Það gerir allan samanburð erfiðan sem og hvers kyns stefnumótun.

Frú forseti. Í umsögnum og nefndaráliti meiri hlutans hefur mönnum verið tíðrætt um lýðheilsu og það er vel, en minni áhersla hefur verið lögð á og að ég tel ekki einu orði minnst á með hvaða hætti efla eigi eftirlitsþátt hins nýja embættis en margrætt um hvernig gera skuli lýðheilsu hátt undir höfði. Ég dreg ekki í efa, frú forseti, eða mæli því í mót að það sé nauðsynlegt en það er líka umhugsunarvert fyrir heilbrigðisnefnd þingsins með hvaða hætti eftirlitsþætti landlæknisembættisins er almennt fylgt eftir og þá hvort ekki beri að skoða þann þátt sérstaklega þegar kemur að samræmdri nýrri stofnun

Minni hluti heilbrigðisnefndar vill benda á að sagt er í frumvarpinu að sameina eigi Lýðheilsustöð og landlæknisembættið í eitt embætti. Í frumvarpinu er í raun verið að fella niður lög um Lýðheilsustöð og breyta lögum um landlæknisembættið og því er fremur um að ræða flutning Lýðheilsustöðvar undir landlæknisembættið en sameiningu.

Minni hlutinn vill taka fram að í umfjöllun nefndarinnar um nafngift hins nýja embættis — því að til stóð að stofna nýtt embætti en ekki nýja stofnun og frumvarpið sjálft gerði ráð fyrir nýju embætti en ekki nýrri stofnun — komu í ljós ýmsir lagalegir vankantar fyrst og síðast. Málfarslega hefði mátt lagfæra þá vankanta sem fram komu en þeir voru lagalegir og því var lagt til í nefndaráliti meiri hlutans að um nýja stofnun yrði að ræða en ekki nýtt embætti og forstöðumaður hinnar nýju stofnunar, Landlæknis – lýðheilsu, yrði landlæknir og lögin bæru heitið lög um landlækni og lýðheilsu.

Minni hluti nefndarinnar telur að íhuga verði gaumgæfilega hvort ekki sé betra að standa þannig að málum að leggja niður landlæknisembættið og Lýðheilsustöð og við stofnun nýrrar stofnunar á heilbrigðissviði verði sett ný lög í stað þess að gera fyrirhugaðar breytingar á lögum um landlæknisembættið. Minni hlutinn bendir einnig á að fleiri heilbrigðisstéttir en læknar geti verið í forustu slíkrar stofnunar og því er ekki að mati minni hlutans rétt að binda það til framtíðar að læknir eigi að sinna stöðu forstöðumanns við nýja stofnun. Með því er ekki á nokkurn hátt verið að varpa rýrð á núverandi landlækni. Þróun menntunar innan heilbrigðisgeirans gerir það að verkum að fleiri gætu veitt slíkri stofnun forstöðu en eingöngu þeir sem hlotið hafa læknismenntun.

Samkvæmt gildandi lögum um Lýðheilsustöð, nr. 18/2003, gegna fagráð stofnunarinnar hlutverki sérfræðiráða og er skylt að skipa í þau. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er landlækni skv. 6. gr. heimilt að setja á fót slík fagráð en ekki skylt. Ég vil því vísa til þess að þegar stofnun Lýðheilsustöðvar var til umræðu í þinginu árið 2003 kom eftirfarandi fram í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðisnefndar, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði Lýðheilsustöð og er markmið hennar að efla lýðheilsu með því að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum og viðurkenndum aðferðum. Lýðheilsustöðinni er m.a. ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings um heilbrigði og heilsueflingu í samstarfi og samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Lagt er til að áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnanefnd starfi innan Lýðheilsustöðvar og verði sérfræðiráð hennar. Einnig er gert ráð fyrir að ýmis heilsueflingar- og forvarnaverkefni verði flutt til hennar, m.a. tannverndarráð, gigtarráð og Árvekni.

Við umfjöllun málsins var rætt um hlutverk fagráða þeirra sem starfa hjá landlæknisembættinu. Fagráðin voru sett á fót í upphafi ársins 2000 í þeim tilgangi að vera landlækni til ráðgjafar um áherslur í forvarnastarfi, heilsuvernd og heilsueflingu á ýmsum sviðum heilsugæslu. Er fagráðunum ætlað að gera tillögur til landlæknis um áherslur í heilsuvernd á hverjum tíma, m.a. við gerð klínískra leiðbeininga, kynningu og fræðslu fyrir fagfólk og gerð fræðsluefnis fyrir almenning. Fagráðin eru því vettvangur nýrra hugmynda og þróunarstarfs landlækni til ráðgjafar varðandi þróun á viðkomandi sérsviðum. Starfandi eru átta fagráð, um geðvernd, heilsueflingu, heilsuvernd aldraðra, heyrnarvernd, mæðravernd, sjónvernd, ung- og smábarnavernd og vinnuvernd, auk stýrihóps um sjálfsvígsforvarnir. Lítur meiri hlutinn svo á að við mótun hlutverks Lýðheilsustöðvar verði skerpt á verkaskiptingu milli þessara aðila, annars vegar á hlutverkum fagráða sem starfa hjá landlækni og hins vegar fagráðum sem starfa hjá Lýðheilsustöð.“

Er þá lokið, frú forseti, tilvitnun í nefndarálit meiri hluta heilbrigðisnefndar sem var í umræðu á hinu háa Alþingi árið 2003.

Minni hluti núverandi heilbrigðisnefndar vill árétta í ljósi þessa mikilvægi fagráða og tekur því undir álit meiri hluta nefndarinnar um að tekið verði fram í lögunum að skipa skuli fagráð og treystir því jafnframt að áfram eigi að nýta sérþekkingu sem til er innan frjálsra félagasamtaka og þann mikla auð sem felst í starfi þeirra.

Í b-lið 6. gr. frumvarpsins er fjallað um nýjan lýðheilsusjóð og leggur minni hlutinn áherslu á að bundið verði í reglugerð að í stjórn slíks sjóðs sitji ávallt fulltrúar fagráða og hinna frjálsu félagasamtaka sem geri tillögur um veitingu styrkja úr sjóðnum, skýrar gagnsæjar reglur verði settar þar um og að ekki verði heimilt að setja fé úr sjóðnum í rekstur. Þetta er sett inn að gefnu tilefni vegna þess að svo virðist sem að úr hluta þessara sjóða hafi verið heimilt að taka fé til rekstrar og ákveðnu fé úthlutað til einstakra verkefna.

Í umfjöllun nefndarinnar var fjármögnun sjóðsins rædd og fram kom að fyrirhugað er að sá hluti áfengisgjalds sem áður rann til tóbaksvarna- og forvarnasjóðs renni til lýðheilsusjóðs og einnig hlutfall af brúttósölu tóbaks. Minni hluti nefndarinnar tekur undir álit meiri hlutans um að tryggja verði frekari framlög til lýðheilsusjóðsins svo að hann standi undir merkjum forvarna á sviðum heilsueflingar í framtíðinni.

Frú forseti. Í umsögn sóttvarnalæknis til nefndarinnar kemur fram ítrekun á að skýra þurfi vel stjórnsýslustöðu sóttvarnalæknis og að gerður sé greinarmunur á eftirliti og framkvæmd. Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að til að tryggja sérstöðu sóttvarnalæknis þurfi að koma til breytingar á 10. gr. frumvarpsins þar að lútandi. Hyggst minni hlutinn leggja fram slíka breytingartillögu og væntir þess í ljósi orða hv. þm. Þuríðar Backman og þess sem stendur í meirihlutanefndarálitinu að hægt verði að sameinast um þá breytingartillögu minni hlutans.

Minni hlutinn gagnrýnir harðlega það vinnuferli sem farið hefur í gang og tengist hugsanlegum starfsmönnum fyrirhugaðrar nýrrar stofnunar. Minni hlutinn mótmælir jafnframt því sem fram er sett í 10. gr. frumvarpsins þar sem segir að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 skuli ekki gilda um ráðstöfun starfa. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir löggjafarvaldið að binda í ný lög að ekki skuli farið að eldri lögum. — Ég ítreka, frú forseti, að lagt sé til í frumvarpi að löggjafarvaldið bindi í ný lög að ekki skuli farið að eldri lögum.

7. gr. laga nr. 70/1996 orðast svo, með leyfi forseta:

„Laust embætti skal auglýsa í Lögbirtingablaði og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi blaðsins. Þó er heimilt að skipa mann eða setja í embætti skv. 2. mgr. 23. gr. eða setja í forföllum skv. 1. málsl. 24. gr. eða flytja hann til í embætti skv. 36. gr. án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar.

Önnur störf skulu auglýst opinberlega samkvæmt reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra. Forstöðumanni stofnunar er heimilt að setja sérreglur um það hvernig auglýsa skuli störf hjá stofnuninni, enda sé það gert opinberlega og reglurnar hljóti staðfestingu fjármálaráðherra. Í reglum samkvæmt þessari málsgrein má mæla svo fyrir að störf þar sem ekki er krafist tiltekinnar sérmenntunar eða sérhæfingar þurfi ekki að auglýsa opinberlega

Skylt er, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.“

Frú forseti. Það er dapurt að hér skuli rætt að binda eigi í lög að fram hjá þessu sé horft á þeim tímum sem núverandi ríkisstjórn og meiri hluti hennar hefur talað um að hér eigi að tíðka ný vinnubrögð, hverfa frá því gamla sem ríkti fyrir hrun, hér eigi að ríkja ný vinnubrögð, opin og gegnsæ stjórnsýsla, en samt ætlar þessi sami meiri hluti að leggja til að löggjafanum verði falið að binda í ný lög að fara ekki eftir gömlum eldri lögum. Þetta hýtur að vera, frú forseti, afar sérstakt á löggjafarþinginu og þetta hlýtur líka, frú forseti, að vekja okkur til umhugsunar um hvort það sæmi löggjafarvaldinu að setja ný lög um að ekki skuli farið að eldri lögum.

Ég viðurkenni það, frú forseti, að mér er ekki kunnugt um hvort þannig hafi almennt verið staðið að málum en hafi svo verið gert og hafi maður sjálfur verið þátttakandi í slíku er það með öllu óásættanlegt.

Fram hefur komið að starfsmönnum þeirra stofnana sem til stendur að sameina hefur verið tilkynnt um sameininguna og er það vel. Þeir hafa fengið tækifæri til að koma með tillögur og athugasemdir. Samhliða fer í gang nokkurs konar ráðningarferli áður en frumvarpið er orðið að lögum og er vísað til a-liðar 10. gr. frumvarpsins um að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 gildi ekki og þess vegna sé ekki heimilt að auglýsa stöður hvorki opinberlega né á innra neti stofnananna. Þannig er 10. gr. beitt og sagt að ekki sé heimilt að gera það sem að öllu jöfnu standi í 7. gr. Þetta er afar dapurlegt.

Þetta svokallaða ráðningarferli hefst áður en ljóst er hvort hugsanlegar breytingar verði gerðar á frumvarpinu og þá hverjar. Þetta vinnulag er döpur byrjun fyrir nýja stofnun, gagnsæi og fagleg vinnubrögð sem hér eru greinilega fyrir borð borin. Ljóst er að ekki liggja fyrir starfslýsingar hinna nýju starfa, hvorki starfa yfirmanna né annarra. Til eru jú, frú forseti, drög að skipuriti, en þeir starfsmenn sem ég hef rætt við hafa ekki fengið starfslýsingar hinna nýju starfa né heldur hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem hugsanlega vilja sækja um. Það hefur einnig komið fram, frú forseti, og kom fram á síðasta fundi heilbrigðisnefndar þar sem framkvæmdarstjóri BHM gerði í bréfi til landlæknis og setts forstjóra Lýðheilsustöðvar athugasemdir, m.a. við ferlið. Það kom í ljós að BHM telur rétt að auglýsa stöður, a.m.k. yfirmannastöður, opinberlega og að lágmarki innan stofnunarinnar þannig að öllum þeim sem áhuga hafi gefist kostur á að sækja um slíkar stöður og að fyrir liggi hvaða kröfur eru gerðar til starfsins. Sömuleiðis kemur fram í bréfi BHM að ef verið sé að vinna eftir ósamþykktu lagafrumvarpi kalli það á önnur viðbrögð sem send verði velferðarráðherra.

Frú forseti. Minni hlutinn telur vinnulag sem þetta algerlega óásættanlegt gagnvart starfsmönnum beggja núverandi stofnana og gagnvart löggjafarvaldinu sem enn er með frumvarpið í vinnslu. Slíkt vinnulag ber ekki vott um faglega nálgun í sameiningu tveggja stofnana og er ekki til þess fallið að skapa traust.

Frú forseti. Minni hluti heilbrigðisnefndar leggst ekki gegn sameiningu stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði. Minni hlutinn hefði hins vegar kosið að lengra hefði verið gengið í sameiningu stjórnsýslustofnana og að lengri tími hefði verið til að vinna þetta verkefni sem og að rætt hefði verið um fleiri tillögur að sameiningu en það var ekki gert.

Frú forseti. Minni hluti heilbrigðisnefndar leggur fram tvær breytingartillögur. Önnur greinin er um að 10. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

a. ( I.)

Öll störf hjá landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð eru lögð niður frá og með 1. janúar 2012. Auglýsa skal öll störf hjá hinni nýju stofnun Landlæknir – lýðheilsa. Velferðarráðherra skipar sóttvarnalækni við nýja stofnun, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 70/1996.“

Ég vænti þess, frú forseti, að löggjafarvaldið geti almennt tekið undir þessa breytingartillögu.

„b. (II.)

Hin nýja stofnun Landlæknir – lýðheilsa tekur frá 1. janúar 2012 annars vegar við eignum landlæknisembættisins og hins vegar við eignum Lýðheilsustöðvar sem og réttindum og skyldum þeirra að því er varðar framkvæmd laga sem falla undir málefnasvið þeirra á þeim tíma.“

Frú forseti. Einnig að 13. gr. orðist svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.“

Það hefur töluvert verið rætt um að þetta ætti að hafa verið unnið frá og með 1. mars sl., og 1. mars er í dag, og því ætti allt að hafa gengið með þeim hætti fyrir sig að stofnunin væri tilbúin að taka til starfa um leið og frumvarpið yrði að lögum frá Alþingi. Á það get ég ekki fallist. Ég get ekki fallist á það að hægt sé að vinna að verkefni áður en Alþingi hefur samþykkt frumvarpið og það orðið að lögum. Í það minnsta er algjörlega óásættanlegt, frú forseti, að við sameiningu tveggja stofnana skuli lagt til að störf verði lögð niður en þau eigi ekki að auglýsa og hvika eigi frá gildandi lögum nr. 70/1996.

Frú forseti. Minni hlutinn mun ekki fallast á frumvarpið. Minni hlutinn óskar hins vegar eftir því að breytingartillögur þær sem hann leggur til hljóti hljómgrunn hjá Alþingi þar sem í annan stað er verið að óska eftir því að Alþingi fari að lögum, fari að gildandi lögum, auglýsi öll störf laus til umsóknar þegar tvær stofnanir eru felldar niður. Það hlýtur, og ég ítreka það enn og aftur, frú forseti, það hlýtur að vera umhugsunarefni að í frumvarpi til laga, eins og er í þessu frumvarpi, skuli haldið til streitu að Alþingi eiga að binda í ný lög að fara ekki eftir eldri gildandi lögum.