139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna húsnæðisins sem við höfum enn og aftur numið staðar við sem og þann kostnað sem ráðuneytið mun bera spyr ég: Telur hv. þingmaður að leigusamningurinn sem er óuppsegjanlegur og 17 ár eru eftir af hefði átt að binda landlæknisembættið í því húsnæði og að ekki hefði átt að hugsa um sameiningu á næstu árum? Er það niðurstaða sem er ásættanleg? (Gripið fram í.)

Það er dýrt að skipta um húsnæði, það er alveg ljóst. Þess vegna tel ég þetta skammsýni. Það er dýrt að vera fátækur, en það er líka dýrt að vera svo bundinn af núverandi starfsemi að maður geti ekki horft aðeins fram í tímann. Það eru ekki margir fermetrar sem þarna munar.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísaði til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og ég tel að hún vísi þar í ranga grein því að framkvæmdastjóri BHM sem kom á fund nefndarinnar vegna bréfs sem hafði legið fyrir vísar til 19. gr. starfsmannalaga. Sú grein hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga, enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum.“

Það er til þessa sem verið er að vísa. Þar sem við höfum unnið að þessu samkvæmt því frumvarpi sem hér hefur legið fyrir og komið hefur fram að er sátt um, að stuðla að sameiningu þessara stofnana, tel ég mikilvægt að við vekjum ekki upp (Forseti hringir.) óróa og öryggisleysi meðal starfsmannanna.