139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi aldrei í ræðu minni að Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri BHM, hefði vísað í eina eða neina grein. (Gripið fram í.) Ég er að vísa í það sem stendur í frumvarpi til laga og sem meiri hluti nefndarinnar hyggst láta ganga áfram, að 7. gr. laga nr. 70/1996 skuli ekki eiga við um þessa sameiningu. Það stendur í 10. gr. frumvarpsins. (JRG: Það er …) Það er sú grein sem ég las hér upp áðan um að auglýsa eigi allar lausar stöður. Þetta hyggst meiri hlutinn hundsa og leggur til að þessi grein gildi ekki við sameiningu þessara stofnana.

Það breytir engu, frú forseti, eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kallar hér fram í, að það sé allt í lagi að fara ekki að lögum af því að það hafi svo oft ekki verið gert. Það er algjörlega fáránlegt, frú forseti, að ætla að leggja niður tvær stofnanir, auglýsa engin störf þar að lútandi og bera fyrir sig þá lagagrein að löggjafinn eigi að binda í ný lög að gömul lög eigi ekki að gilda.

Hvað varðar það sem fram kom í andsvari hv. þm. Þuríðar Backman hvort ekki hefði átt að fara í sameiningu vegna þess að 17 ár voru eftir af samningi landlæknisembættisins um það húsnæði bendi ég bara á það sem ég veit að hv. þm. Þuríður Backman veit mætavel, að jafnágæt stofnun og Landspítali – háskólasjúkrahús er á 18 stöðum en lýtur samt einni yfirstjórn. Ef ekki er hægt að vera á tveimur stöðum þar til um hægist og fjárráð ríkissjóðs verða vænlegri en raun ber vitni er verr af stað farið en heima setið.