139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um sameiningu tveggja stofnana, landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Ég held að það væri ágætt að menn reyni í þessari umræðu að halda sig við kjarna málsins, þ.e. er þetta gott eða vont? Er rétt að sameina þessar stofnanir eða ekki? Það er kannski heildarspurningin sem menn þurfa að svara.

Í fyrri ræðu minni um þetta mál við 1. umr. tíndi ég aðeins til forsöguna að því að Lýðheilsustöð varð til á sínum tíma, þar tiltók ég líka þær áhyggjur sem ég hafði þá um þetta mál. Þær áhyggjur lutu aðallega að eftirlitsþáttum, þ.e. landlæknisembættið hefur verið með eftirlit með heilbrigðisstarfsemi á Íslandi, og ég spurði mig þeirrar spurningar hvort það að sameina Lýðheilsustöð og landlæknisembættið gæti haft þau áhrif á að minna eftirlit yrði með Lýðheilsustöð eftir að búið væri að sameina hana og landlæknisembættið.

Ég tel að ég hafi fengið skýringar og svör við þessum áhyggjum í nefndarvinnunni og að áhyggjur mínar hafi reyndar verið óþarfar, það hafi ekki verið neitt sérstakt eftirlit af hálfu landlæknisembættisins hvort eð er með Lýðheilsustöð svo það breytist ekki neitt að því leyti. Það er meira eftirlit af hálfu ráðuneytisins með lýðheilsustarfinu. Ég hef því fengið skýringar og tel ekki þurfa að halda spurningu um eftirlitsþáttinn neitt frekar til haga.

Ég er hins vegar á nefndaráliti meiri hlutans með fyrirvara og ég ætla aðeins að útskýra af hverju sá fyrirvari er. Hann er vegna þess að ég vil ekki að sameiningin verði til þess að lýðheilsumálin fái minna vægi, fyrirvari minn lýtur að því að undirstrika að það sé mjög brýnt að lýðheilsumálin fái meira vægi innan nýrrar stofnunar en þau hafa fengið hingað til. Fyrirvari minn lýtur líka að því að ég tel að það sé ekki alveg sannleikanum samkvæmt að það hafi verið eins mikil hamingja með undirbúning að stofnun þessarar nýju stofnunar og rætt var um í nefndinni og gefið er í skyn í nefndarálitinu líka, að þarna hefði allt verið í lukkunnar velstandi, allir agalega miklir vinir og þetta hafi allt gengið svakalega vel. Ég held að það sé ekki alveg þannig. En ég vil gefa þessu máli tækifæri og því mun ég styðja það með þessum fyrirvörum af því að ég hef þá trú að það geti orðið öflug stofnun út úr þessu eftir á að hyggja.

Þetta segi ég líka vegna þess að þegar við fengum gesti á fund heilbrigðisnefndar vegna þessa máls fann ég fyrir mjög miklum áhuga. Mér fannst skemmtilega mikill áhugi hjá landlækni sjálfum, Geir Gunnlaugssyni. Hann hafði mjög mikinn áhuga á lýðheilsumálunum, það skein af honum sá áhugi og kapp. Mér fannst ég finna fyrir því þannig að ég hef trú á því að hægt sé að skapa samstöðu um að bæta lýðheilsuþáttinn.

Formaður nefndarinnar, hv. þm. Þuríður Backman, fór hér yfir nafnamálið svokallaða. Mikil umræða var í nefndinni um hvað stofnunin ætti að heita, hvað barnið ætti að heita. Það sem lagt var upp með þótti ekki málfarslega tækt. og því þurfi að finna eitthvað nýtt. Það varð heilmikil rekistefna út af því og ég ætla alls ekki að rekja það, það hefur verið rakið hér ágætlega þannig að hægt er að leggja þetta stóra nafnamál til hliðar að mínu mati. Fundin hefur verið lausn á því og sú lausn var skýrð hér í ræðu formanns nefndarinnar.

Ég vil líka halda því mjög til haga, og það varð til þess að mér fannst rétt að styðja þetta mál, að til stóð í frumvarpinu þegar það kom fyrst fram að láta fagráðin meira og minna víkja, að það yrði eitthvert val um hvort þau störfuðu áfram eða ekki. Við í nefndinni komumst hins vegar að annarri niðurstöðu, m.a. eftir heimsóknir aðila frá fagráðunum en þau sinna áfengisvörnum, tóbaksvörnum o.s.frv. Þeir undirstrikuðu mjög rækilega að þeir vildu halda áfram að vera í tengslum við þessi lýðheilsumál og hafa þar sérstakan sess. Við féllumst á það í nefndinni.

Gert er ráð fyrir því að landlæknir skuli setja á fót fagráð, það er ekkert val, hann skal, við gerum þær breytingar. Þegar það er gert fer sá svipur af málinu sem var á því áður. Svipurinn var svolítið þannig að lýðheilsumálin færu meira inn í eitthvert embættismannakerfi, sérfræðingakerfi, og frá grasrótinni sem fagráðin eru fulltrúi fyrir. Það var skaðlegt. Svipurinn sem var á málinu í upphafi var sá að við værum að taka þessi mál frá grasrótinni og setja þau meira inn í embættismannakerfið, sérfræðingakerfið.

Við viljum halda í þetta mikla grasrótarstarf sem unnið er í áfengisvörnum, tóbaksvörnum og á fleiri sviðum. Þess vegna er þetta tekið fram og hér eru breytingartillögur, sem búið er að gera grein fyrir, um að það skuli skipa fagráð. Þau geta hins vegar verið sveigjanleg, það er hægt að bæta við, það á að halda í þau sem nú þegar eru starfandi en það er hægt að taka upp ný eftir því sem lýðheilsustarf breytist í framtíðinni.

Í lýðheilsumálum er auðvitað mjög margt óunnið hjá okkur og öðrum ríkjum almennt. Hægt er að tilgreina hér að við höfum þó tekið mjög vel á í sambandi við reykingar, þær hafa farið minnkandi. Fyrir ekkert svo löngu ákváðum við að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Sú er hér stendur tók þátt í að koma því máli áfram og í höfn við misjafnar undirtektir ýmissa aðila sem tala hátt um frelsið svokallaða. Ég tel að það sé frelsi þeirra sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum að geta unnið í reyklausu umhverfi. Ég hef hins vegar áhyggjur af munntóbaksnotkun, sérstaklega íþróttafólks og ungs fólks, ég tel að það þurfi að taka á í því. Við þurfum að vinna ötullega að áfengisvörnum, okkur berast alls konar fréttir um talsverða landasölu. Það hefur verið vandi hjá okkur um langt skeið, þ.e. áfengisdrykkja of ungs fólks. Þó hefur náðst ákveðinn árangur þar líka.

Síðan hefur okkur heldur hrakað gagnvart offituvandanum. Við mælumst núna fjórða feitasta þjóð Evrópu, það er ekki mjög smart að mælast þar. Aðrar Norðurlandaþjóðir eru betur staddar. Þær eru ekki svona ofarlega á listanum, sem er vont að vera, þær virðast vera grennri en við.

Sú er hér stendur hefur einmitt lagt fram þingsályktunartillögu um „Skráargatið“ til að koma því til leiðar að hægt verði að kaupa holla matvöru með auðveldari hætti en nú er. Mun ég mæla fyrir því máli hið allra fyrsta svo ég komi því vonandi í gegnum þingið eins og önnur norræn ríki hafa nú þegar gert hjá sér, þ.e. Danmörk, Svíþjóð og Noregur. Þau eru því mörg verkin í lýðheilsumálum sem þarf að vinna.

Við fjölluðum í nefndinni talsvert um lýðheilsusjóðinn. Ég ætla ekki að endurtaka það sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Þuríður Backman, sagði um það. Við tókum þó af skarið með sjóðinn, sett verður stjórn yfir sjóðinn sem skipuð verður fjórum fulltrúum sem tilnefndir eru af fagráðum, tveimur fulltrúum embættisins og formanni sem skipaður er af ráðherra. Setja á reglugerð um úthlutunina þar sem sett verða ákveðin viðmið, þ.e. í hvað peningurinn á að fara, í hvaða forvarnastarf, í hvaða lýðheilsustarf og hve mikið á að fara í rekstur. En það var þannig, sem hefur komið mörgum á óvart, að hluti af upphæð forvarnasjóðsins fór beint í rekstur. Það er ágætt að við komum grasrótarsamtökunum þarna að þannig að þau hafi áhrif á hvernig peningunum er ráðstafað úr lýðheilsusjóði.

Í nefndarálitinu er fjallað um svokallað tappagjald. Það er ekki tillaga um slíkt gjald en það er fjallað um tappagjald á gosdrykkjaflöskur. Það er svolítið spennandi nálgun, hvort hægt verður að koma á tappagjaldi af gosflöskum eða gjaldi af sætum drykkjum til að nýta í forvarnastarf í tannverndar- og manneldismálum. Kannski verður það gert í framtíðinni.

Flutningur á dánarmeinaskrá var líka til umræðu í nefndinni. Mig langar aðeins að geta þess að þar kom fram að mjög brýnt og tímabært sé að endurskoða lög um dánarvottorð, m.a. með tilliti til þess fyrirkomulags sem er á skráningu andláts. Þetta er vinna sem ég tel að fara verði í hið allra fyrsta. Reyndar komu líka fram í nefndinni upplýsingar sem urðu kveikja að fyrirspurn sem sú er hér stendur flutti, um nöfn látinna manna í opinberum skrám, þ.e. hvernig ferlið er þegar fólk fellur frá, hvernig það er tekið úr opinberum skrám, afskrifað, ef nota má svo óviðeigandi orð hér. Fyrirspurnin leiddi það í ljós m.a. fyrir rannsóknir fjölmiðla. Fjölmiðlar voru fljótari að finna út úr þessu en ég að fá svarið frá hæstv. ráðherra. Fjölmiðlar fundu út það sem mig grunaði, miðað við þær upplýsingar sem komu fram í nefndinni, að til væri dæmi um einstakling sem hefði ekki verið felldur út af skrá og borgaðar hefðu verið bætur til viðkomandi aðila inn á reikning. Þetta mál er sjálfsagt í rannsókn og er auðvitað mjög óheppilegt. Japanar hafa lent ansi mikið í þessu. Þar eru víst dæmi um fjölda manns sem hafa fallið frá en ættingjarnir virðast njóta bótanna án þess að kerfið viti af því. Maður spyr sig þá hvort það sé bara vitleysa að Japanar verði svona gamlir, kannski eru bara mjög margir fallnir frá en eru á lífi í skránum. Þetta þarf alla vega að vera í lagi.

Í svarinu kom fram að í mörgum löndum er það þannig að þegar fólk flytur úr viðkomandi landi til Íslands en fær bætur frá því landi þarf Ísland eða þjóðskrá að láta fólkið hafa pappíra upp á að það sé á lífi svo það geti sent slíka pappíra til gamla landsins og fengið bæturnar hingað, það er haft eftirlit með þessu fólki.

Mér skilst líka að það séu dæmi um þetta með Íslendinga sem búa hér en hafa starfað erlendis og eiga rétt á bótum þar, að þeir þurfi líka að fá einhverja staðfestingu, væntanlega héðan, á því að þeir séu á lífi til þess að fá bæturnar sendar hingað. Ég tel að við þurfum að skoða hvort þetta sé ekki eitthvað sem við þurfum að gera líka, ef við sendum út bætur þurfi að tékka einhvern veginn á því, kannski ekki árlega en með einhverju reglubundnu millibili, hvort viðkomandi aðili sé á lífi eða ekki. Þetta er auðvitað skrýtin umræða en alla vega þarf að gera eitthvað svo þetta komi ekki upp aftur.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira. Ég held að sé mjög mikilvægt að undirstrika lýðheilsuþáttinn. Ég vil bera þá von að hann verði aukinn, að þetta sé ekki skref aftur á bak fyrir lýðheilsumálin, heldur skref fram á við. Ég treysti á mikinn áhuga landlæknis í þeim efnum sem verður svona höfuðið á þessari nýju stofnun. Ég tel rétt, eins og sagt er í niðurlagi nefndarálitsins, að meta þurfi stöðuna t.d. innan þriggja ára og sjá hverju sameiningin hefur áorkað, hvort eitthvað megi betur fara og hvort hugsanlega ætti að ráðast í enn frekari sameiningar. Ég held að við Íslendingar ættum að sameina mun fleiri stofnanir en við þegar höfum gert. Þetta er kannski eitt skref í þá átt.