139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, eins og ég hef sagt áður, og því að við séum komin svo langt með að sameina þessar tvær stofnanir. Það er afar mikilvægt að við höfum í huga að það er verulegur faglegur ávinningur af því að sameina þessar stofnanir. Það kemur raunar fram í þeim umsögnum sem heilbrigðisnefnd bárust vegna málsins að menn horfa að mestu leyti til þess. Hins vegar tel ég eðlilegt að reikna með því að rekstrarlegt hagræði við sameininguna komi í ljós með tíð og tíma, ég fullyrði alls ekki að það muni gerast á fyrstu einu eða tveimur árunum sem hin nýja stofnun verður starfrækt. Ég bendi til að mynda á hve langan tíma það tók Landspítala – háskólasjúkrahús að skila einhverjum fjárhagslegum ávinningi eftir sameininguna en hann er núna að koma í ljós. Það er mjög mikilvægt að muna það.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á í máli sínu varðandi lýðheilsuna. Fram kom í umsögnum og eins í heimsóknum til nefndarinnar að þeir sem standa í grasrótarstarfi í lýðheilsumálum hefðu að einhverju leyti orðið fyrir vonbrigðum með hvernig það starf hefði þróast eftir að Lýðheilsustöð varð til sem sjálfstæð stofnun. Ég ætla ekki að fullyrða hvort það var vegna þess að eitthvað vantaði í umgjörðina um þá stofnun, fjármagn eða annað, en a.m.k. urðu menn fyrir vonbrigðum og ég tel að það sé mikilvægt að bregðast við og svara því með einhverjum hætti.

Það er einnig rétt sem fram kom í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að það er mikill hugur í núverandi forstöðumönnum stofnananna tveggja að gera lýðheilsu hátt undir höfði í hinni nýju stofnun.

Aðeins hefur verið komið inn á stóra nafnamálið, ef svo má að orði komast. Ég tel að sú lending sem náðst hefur sé ásættanleg og tek undir þá breytingartillögu sem nefndin gerir þar um.

Ég tel breytingartillögu nefndarinnar varðandi lýðheilsusjóð vera mjög góða. Ég taldi afar mikilvægt að sett væri tiltölulega þétt umgjörð utan um sjóðinn, þ.e. að tiltekið væri nákvæmlega hvernig stjórn hans ætti að vera skipuð og jafnframt væri mikilvægt að grasrótin eða fulltrúar fagráðanna öllu heldur hefðu meiri hluta í stjórn þess sjóðs. Breytingartillaga frá meiri hluta nefndarinnar fjallar einmitt um að það sé grasrótin sem eigi fyrst og síðast að geta ákveðið í hvaða lýðheilsuverkefni mikilvægast er að setja peningana á hverjum tíma.

Fagráðin eru líka afar mikilvæg og ég tel að það frumvarp sem nefndin fékk í hendur hvað þau varðar hafi verið ófullkomið. Ég er sammála því sem komið hefur fram í máli þingmanna að ekki er nógu gott að gera ráð fyrir því að skipa megi fagráðin eftir hendinni, liggur mér við að segja, heldur er afar mikilvægt að sett sé á sú skylda að ráðin eigi að vera landlækni og embættinu öllu til ráðgjafar. Ég tel að allir þingmenn heilbrigðisnefndar hafi verið sammála um það atriði þótt við stöndum ekki öll saman að nefndarálitinu í heild.

Nokkuð hefur verið komið inn á tímasetningar á því hvenær lögin eigi að taka gildi. Eins og fram kom í máli hv. formanns heilbrigðisnefndar var upprunalega gert ráð fyrir að lögin tækju gildi um sl. áramót. Af augljósum ástæðum verður ekki af því. Við skulum þá gera það þannig að hægt sé að gefa þeim starfsmönnum sem vinna hjá stofnununum þann umþóttunartíma sem þarf. Ég tel að 1. maí sé í því tilliti ásættanlegur, einkum og sér í lagi ef næst að klára umfjöllun um málið á næstu einum til tveimur vikum, þá ættu þær sex til sjö vikur sem líða fram að 1. maí að vera nægur undirbúningstími fyrir starfsfólkið. Ég bendi jafnframt á að vissulega hafa starfsmenn fengið góða nasasjón, með þeirri umræðu sem verið hefur innan beggja stofnananna, af því að verið er að vinna að sameiningunni. Væntanlega var flestum starfsmönnum ef ekki öllum ljóst að hún væri í undirbúningi og að búast mætti við breytingu á ráðningarsambandi þeirra við nýja stofnun.

En ég tek undir það með þeim þingmönnum sem rætt hafa það mál að það er vissulega mjög mikilvægt að komið sé fram við starfsmenn beggja stofnananna af fullri virðingu og að þeim sé sýnd sú kurteisi að ekki sé hreyft við ráðningarsambandi þeirra, a.m.k. ekki með formlegum hætti, á meðan enn er ekki komið á breytingu á því formlega lagaumhverfi sem þeir starfa í.

Ég kom inn á það áðan að flestar þær umsagnir sem við höfum fengið um frumvarpið hafa verið jákvæðar með tilliti til þess að sameina ætti stofnanirnar, það er afar mikilvægt. Rétt er að geta þess að á því voru mikilvægar undantekningar, þó ekki að ekki ætti að fara í sameiningu á stofnunum sem sneru að lýðheilsu og forvarnastarfi heldur þá miklu fremur að ganga ætti lengra, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á áðan. Ég tel hins vegar að þrátt fyrir allt sé þessi sameining tiltölulega einföld tæknilega séð að flestu leyti og því sé hægt að ganga í hana núna. Verkefni stofnananna eru lík að mörgu leyti. Ég held raunar að bæði lýðheilsu- og forvarnaþátturinn eigi eftir að eflast hjá nýrri stofnun frá því sem nú er. Það er kannski það sem er einna mikilvægast.

Varðandi síðan það sem ég kom aðeins inn á í andsvari áðan um eftirlitshlutverk landlæknisembættisins er ekki hægt að gera lítið úr því. Það er gríðarlega mikilvægt. Þar er að stórum hluta við löggjafann og kannski ráðuneytið að einhverju leyti að sakast ef það hlutverk hefur ekki verið rækt nægilega vel. Ég man ekki eftir því, hvorki í störfum mínum sem heilbrigðisstarfsmaður né sem þegn í þessu samfélagi, að hafa nokkurn tíma heyrt landlækni vera fullsáttan við það fjármagn sem ætlað er til þeirra þátta. Það hefur alltaf verið of lítið og við eigum sem löggjafi að huga að því í aðdraganda fjárlagagerðar næsta haust að bæta þar í ef þess er nokkur kostur. Það er afar mikilvægur þáttur í starfsemi embættisins og ég tel að við eigum að reyna af öllum mætti að bæta þar í.