139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:13]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um landlækni og Lýðheilsustöð með það að markmiði að sameina í eina stofnun embætti landlæknis og Lýðheilsustöð. Það er eins og alltaf þegar breytingar eru gerðar á stofnunum að þær geta verið erfiðar vegna þess að þeim fylgir ákveðin óvissa. Það á sjálfsagt við í þessu tilviki þó að forstöðumenn þessara stofnana, sem komu og kynntu málið fyrir okkur í heilbrigðisnefnd, virtust hafa undirbúið málið mjög vel og af mikilli yfirvegun. Einhvern veginn virðist breytingarferlið fara í gegn að mestu leyti þannig að starfsfólkið unir þokkalega vel við og það skiptir mjög miklu máli. Við erum fyrst og fremst að ræða um fyrsta skref í sameiningu stofnana á velferðarsviði og ég tel að farsælast sé að taka ekki allt of stór skref í breytingarferlinu. Hér virðist þó vera þokkalega vel vandað til eins og fram kom í flestum umsögnum þeirra sem fyrir nefndina komu eða sendu til okkar umsagnir.

Vegna þess að vitað er að landlæknir verður yfirmaður hinnar nýju stofnunar eru margir svolítið hugsandi yfir því hvort lýðheilsuþættinum verði örugglega sinnt sem skyldi. Við teljum tryggt að svo verði og höfum sett inn ákveðnar breytingar í frumvarpið til að tryggja gott samstarf við grasrótarhreyfingar. Það var gert með því að ákveða að fagráðin séu ekki valkvæð hjá yfirmanni stofnunarinnar heldur sé það skylda að þau verði starfrækt til að tryggja það góða samstarf sem verið hefur við frjáls félagasamtök og grasrótina á vettvangi lýðheilsu.

Markmiðin með sameiningunni eru falleg eins og markmið eru yfirleitt. Við förum ekki í svona breytingar nema til að vinna ákveðið gagn. Hér erum við að vinna að eflingu lýðheilsu og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og það eru ekki lítil markmið. Í sameinuðu embætti er ætlað að standa vörð um heilbrigði og velferð þjóðarinnar svo hinni nýju stofnun er svo sannarlega ætlað stórt og mikið hlutverk. Gert er ráð fyrir að stofnunin sinni öllum þeim hlutverkum sem embætti landlæknis og Lýðheilsustöð hafa séð um, bæði forvarna- og lýðheilsuþættinum sem og eftirlitshlutverki, upplýsingaöflun, gæðamálum og skýrslugerð sem embætti landlæknis hefur staðið fyrir.

Ég ítreka að það skiptir mjög miklu máli að þó að sameiningin hafi ekki verið að frumkvæði þessara stofnana heldur af því að það náðist strax þokkalegur góður samstarfsgrundvöllur um verkefnið legg ég mikla áherslu á í hversu góðri sátt málið var unnið. Hv. heilbrigðisnefnd lagði mjög mikla áherslu á að koma lýðheilsuþættinum að og láta hann vera mjög áberandi þannig að sú gagnrýni sem fram kom hjá ákveðnum aðilum eins og t.d. Hjúkrunarfélagi Íslands er ekki rétt. Það er ekki þannig að landlæknir yfirtaki Lýðheilsustofnun sem hverfi svo inn í það embætti.

Það var mjög gott að við skyldum ákveða að fagráðin væru lögbundin, það er ekkert valkvætt í því sambandi, og sú útfærsla sem sett hefur verið fram um lýðheilsusjóð og aðrir hv. þingmenn hafa farið yfir tel ég að sé í mjög góðu lagi. Við eigum að vera hæfilega sveigjanleg varðandi fagráðin. Ákveðin fagráð verða að vera fyrir hendi, eins og tóbaksvarnaráð, tannverndarráð og áfengisvarnaráð o.s.frv., hvort sem þau munu heita þeim nöfnum eða öðrum. Mér finnst þó að hin nýja stofnun eigi að geta brugðist við sérstökum heilbrigðisvandamálum sem upp koma þannig að hugsanlega verði hægt að setja á fót ný ráð.

Mér líst mjög vel á þá hugmynd sem fram kom í nefndinni að skoða fleiri tekjustofna til að fjármagna sjóðinn eins og t.d. tappagjald sem mundi vera nýtt í tannverndarmálum. Eins og staðan er núna þurfum við að taka þann málaflokk sérstaklega fyrir.

Talsvert var rætt um dánarmeinaskrá og að eðlilegt sé að hún verði flutt til hinnar nýju stofnunar þó að Þjóðskrá Íslands sinni áfram lögbundnu hlutverki sínu og Hagstofan geti fengið þær upplýsingar sem hún þarf á að halda. Það er enginn eðlislægur munur á dánarmeinaskránni eða öðrum skrám sem landlæknir heldur þannig að það er mjög eðlilegt að halda því áfram. Sérstaklega er tekið fram að við eigum að halda áfram ítarskráningu dánarmeina því að hún gefi mjög góðar og miklar upplýsingar.

Varðandi fjárhag þessara stofnana ítreka ég það sem komið hefur fram að sameiningin á að skila bæði hagrænum og faglegum arði. Helstu kostirnir við sameininguna eru af faglegum toga. Húsnæðismálin eru flókin en ég leyfi mér að halda því fram vegna reynslu minnar af því að sameina stofnanir að það er erfitt að fara af stað í farsæla og góða sameiningu og breyta engu „fýsískt“, þ.e. húsnæðinu. Ég held því að sú lausn sé góð sem fengin var með því að leigja nýtt húsnæði sem vonandi verður hægt að nýta mun betur þegar við höldum áfram að sameina stofnanir á velferðarsviði. Heilmikið hefur verið talað um að stofna þurfi eftirlitsstofnun á velferðarsviði. Hún gæti hugsanlega komið inn þarna og vonandi getum við nýtt húsnæðið mjög vel. Vonandi finnst góð lausn á húsaleigusamningum sem gerðir hafa verið hjá landlæknisembættinu. Ef til vill verður hægt að finna lausn á því máli annaðhvort með því að segja þessum samningi upp eða þá hreinlega að reyna að endurleigja húsnæðið.

Ég ítreka að þetta er fyrsta skrefið í sameiningarferli á velferðarsviðinu og við þurfum að meta það ferli eftir tiltekinn tíma, sjá hvernig til hefur tekist um leið og við undirbúum frekari sameiningar. Ég legg mikla áherslu á að sameiningarferli sé unnið eins og unnið var að þessari sameiningu, í góðri sátt, og að tekinn sé þokkalega góður tími í það. Góð sátt þarf að nást um það því það er mjög erfitt fyrir starfsfólk að fara í breytt vinnuumhverfi þótt störf þess séu tryggð. Það hlýtur að vera gott að fólk upplifi að þingið sé nokkuð samtaka í því hvernig að málum er staðið.

Ég held að við stígum gott skref með þessari sameiningu. Hún er bara fyrsta skrefið en það er vonandi farsælt og verður heilbrigðisþjónustu og lýðheilsuþjónustu á Íslandi til hagsbóta.