139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem ég þarf ekki að kynna en það hefur verið í undirbúningi frá því að þáverandi hæstv. ráðherra setti forstöðumenn landlæknisembættisins og Lýðheilsustofnunar í það verkefni. Ég held að í dag sé eitt ár síðan það var. Eitt ár er alveg nægur tími en enn er ekki komið fjárhagslegt mat á sameiningu. Skiptir það máli? Já, virðulegi forseti. Það skiptir mjög miklu máli. Umræðan í dag hefur sýnt okkur það svo ekki verður um villst, t.d. ef við hlustum á síðasta hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, þá sagðist hún vonast til að hægt væri að leysa húsnæðismálin og nefndi ýmsar hugmyndir í því samhengi. Það hefur ekki verið gert. Eftir eitt ár er ekki komið fjárhagslegt mat af sameiningunni og menn eru ekki búnir að leysa þetta.

Nú getur vel verið að þær hugmyndir sem hv. þingmaður nefndi komi eitthvað til móts við þann vanda, við vitum ekkert um það. Ég hef að vísu miklar efasemdir um það. Fyrir þá sem ekki þekkja til ákvað heilbrigðisráðuneytið að taka leigusamningi, sem var 12 millj. kr. dýrari á ári, með stærra húsnæði en þarf í stað þess að taka hagkvæmasta kostinn.

Hvað þýða 12 millj. kr. á ári? Það þýðir hálaunaðan starfsmann hjá þeirri stofnun, jafnvel tvo, en kannski ekki með launatengdum gjöldum, ég þekki það ekki nákvæmlega. En þetta þýðir að í það minnsta gæti einn starfsmaður, yfirmaður eða sérfræðingur misst starfið vegna þess að fjármunir eru frekar notaðir í húsnæðiskostnaðinn, dýrara húsnæði. En það er ekki bara það heldur hefur komið fram í umræðunni að 17 ár eru eftir af mjög dýrum húsaleigusamningi sem var gerður fyrir sjö eða átta árum, samningi sem er óuppsegjanlegur, þar sem landlæknisembættið er nú til húsa á Seltjarnarnesi.

Virðulegi forseti. Menn gætu setið uppi með það húsnæði tómt, í það minnsta hefur ekki komið fram í umræðunni og kom svo sannarlega ekki fram í nefndinni að búið væri að endurleigja það. Ef við erum að tala um að það húsnæði yrði tómt þá fer öll sú húsaleiga sem ég veit ekki nákvæmlega hver er, um 2.100 kr. á fermetra, ég veit ekki hvort um er að ræða 600, 700 eða 900 fermetra, nýja húsnæðið er 1.800 fermetrar, en ef við gerum ráð fyrir að þetta sé helmingurinn af því þá er það um 23 millj. kr. í húsaleigu á ári. Ef við sætum uppi með allan þann kostnað færu um 35 millj. kr. í húsnæðiskostnað aukalega við þessa sameiningu. Það er nokkurn veginn hagræðingarkrafan á þessum tveimur stofnunum. Til að mæta því hjá þessum stofnunum þyrfti að tvöfalda hana ef menn ætluðu að vera á sléttu. Ef það er ekki gert hjá þessari stofnun þarf það væntanlega að gerast einhvers staðar annars staðar í velferðargeiranum.

Virðulegi forseti. Við þurfum að horfast í augu við þessar hugmyndir og þennan raunveruleika. Við getum alveg haft þá skoðun að við vildum hafa þetta allt öðruvísi, auðvitað vildum við hafa þetta allt öðruvísi en þetta er bara svona. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að á þessu eina ári er ekki enn búið að gera neitt fjárhagslegt mat á sameiningunni. Því miður hefur verið allur gangur á því hvernig sameiningar hafa gengið eftir. Ríkisendurskoðun hefur verið óþreytandi að benda á að mikilvægt er að vanda vel til slíkra verka. Ég held að stofnunin hafi sagt að einungis 15% af þeim sameiningum sem farið hefur verið í hafi heppnast, en ég tek fram, virðulegi forseti, að það er eftir minni.

Við erum í þeirri stöðu einu ári eftir að ráðherra setti forstöðumann, og raunar er miklu lengra síðan farið var í þessa vinnu, að ekki er enn búið að taka út fjárhagslega ávinninginn. Ef menn halda, virðulegi forseti, að það bitni ekki á öðrum en starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu, stjórnkerfinu eða þeim sem fengið hafa fyrirgreiðslu til að sinna þeim störfum sem við erum öll sammála um að þarf að vinna, þá eru þeir sömu í miklum blekkingaleik.

Í hv. heilbrigðisnefnd var ekki hlustað á sjónarmið minni hlutans um að fara vel yfir þetta mál, þótt ekki hefði verið annað en að skoða þær skýrslur sem liggja til grundvallar, því að það er fleira en þessi skýrsla, sem því miður er nokkuð gölluð, sem Stefán Ólafsson er kenndur við, en hann var formaður nefndarinnar sem skilaði áfangaskýrslunni. Ég rakti hér fyrr í umræðunni ákveðnar staðreyndavillur og ýmislegt annað en látum það liggja á milli hluta.

Það var tekið út og ég setti þá vinnu af stað að skoða þessi mál þegar ég var í stól heilbrigðisráðherra. Það eru augljós samlegðaráhrif í sambandi við eftirlitsþáttinn, sérstaklega hjá landlækni og Lyfjastofnun, minna varðandi lýðheilsuna. Þá voru uppi hugmyndir um að taka nokkrar stofnanir og sameina þær í tvær þannig að menn legðu sérstaka áherslu á eftirlitsþáttinn, en því miður nýttum ekki tækifærið til að fara vel yfir það. Hvað er þessi eftirlitsþáttur? Er það eitthvað sem skiptir máli? Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom hingað upp og las upp margar lagagreinar um eftirlitsþáttinn í ýmsum lögum.

Virðulegi forseti. Því miður dugar ekki að setja lög. Það verður líka að sjá til þess að þau verði framkvæmd. Við erum að upplifa það í hv. Alþingi að fyrirspurnum hafi t.d. verið svarað þannig að augljóst er, og það hefur verið viðurkennt í svari til mín frá hæstv. velferðarráðherra, að ekki er samræmi í upplýsingum um aðgerðir á heilbrigðisstofnunum. Einhver kynni að segja: Skiptir það einhverju máli? En það er bara grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði að við þekkjum og vitum hvaða þjónustu við erum að veita því að ef við erum ekki með réttar tölulegar upplýsingar um slíkt þá vitum við ekki hvernig okkur miðar og við erum þá ekki með gögn í höndunum til að taka ákvarðanir um þróun í heilbrigðisþjónustu.

Umræðan í nefndinni fór að stærstum hluta í nafnið á stofnuninni, fagráðin sem ég vil ekki gera lítið úr, alls ekki, og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði að umtalsefni í ræðu sinni, og nokkuð um lýðheilsuna en lítið um þennan eftirlitsþátt. Eftirlitsþáttur á heilbrigðissviði er gríðarlega mikilvægur. Menn hafa oft talað um mikilvægi þess að koma á umboðsmanni sjúklinga. Sú umræða er sprottin af því að menn hafa orðið fyrir mistökum í heilbrigðiskerfinu eða þeir telja að þeir fái ekki þá úrlausn sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum og eru ósáttir við þá stöðu mála. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þegar við færum í sameiningu á þessu sviði mundum við að sjálfsögðu fara yfir það.

Nú er ekki hægt að halda því fram, virðulegi forseti, að annirnar í hv. heilbrigðisnefnd hafi verið slíkar að við höfum ekki haft tíma til að gera það. Oftar en ekki falla niður fundir í hv. heilbrigðisnefnd vegna þess að ekki eru verkefni og það gerðist held ég síðasta mánudag ef ég man rétt. Það er svolítið sérstakt í ljósi þess að því var neitað, sem gerist ekki oft í nefndum, en beiðni minni hlutans um að fá ákveðna gesti til að ræða þetta mál var hafnað. Því var hafnað að fá formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á fund nefndarinnar. Því var hafnað að fá skýrsluhöfunda sem höfðu unnið úttekt á þessum þáttum varðandi sameiningarnar. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér þótti það mjög miður. Ég lenti ekki oft í því þegar ég starfaði í nefndum þingsins að manni hafi verið neitað um að fá gesti. Í hv. viðskiptanefnd, sem ég sit líka í, eru oftar en ekki haldnir aukafundir þegar mikið liggur við og það er vilji nefndarmanna að fá gesti. Menn geta ekki sagt í sama orðinu að það sé vilji þeirra að auka vægi þingsins og mikilvægt sé að fara vel og vandlega yfir mál en vinna síðan með þessum hætti. Það er ekki hægt.

Ég vek athygli á að allir sem hafa hlustað á þessa umræðu sjá að á þessum tímum, ekki það að það er alltaf nauðsynlegt að vinna með þeim hætti að fjárhagslegt mat liggi fyrir, en hafi einhvern tíma verið þörf þá er svo sannarlega nauðsyn á því núna. Eftir allan þennan tíma, eitt ár er síðan menn voru settir í vinnu um sameininguna, er ekki enn komið fjárhagslegt mat. Það er að vísu lengra síðan ríkisstjórnin setti vinnu af stað hvað þetta varðar. Eftir allan þennan tíma erum við enn í þeirri stöðu að húsnæðismálin eru í þeim farvegi að menn ætla jafnvel að borga tugum milljónum meira á ári en þarf í aukahúsnæðiskostnað.

Virðulegi forseti. Ég veit að sparnaðurinn sem var í velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu í þessum fjárlögum tók á alla hv. þingmenn, bæði meiri og minni hluta. Hvaða skilaboð eru það frá hæstv. ríkisstjórn — það er alveg ljóst að það þarf að spara, ég ætla ekki að fara yfir vinnubrögðin í því, við höfum gert það áður, látum það liggja á milli hluta — þegar kemur að stjórnsýslustofnunum, þar sem eru sannarlega tækifæri til að hagræða í og spara og nauðsynlegt, þó ekki væri nema vegna sanngirnisraka, að við gerðum það líka þar eins og á heilbrigðisstofnunum? Hvaða skilaboð eru það að á sama tíma og gengið er fram hvort sem það er á Landspítalanum eða í heilbrigðisstofnunum úti á landi með uppsögnum og sparnaði, þá koma menn hér upp og segja: Heyrið þið, þegar kemur að því að sameina þessar stofnanir þarf ekkert fjárhagslegt mat. Þetta er aðallega svona faglegt. Og svo mun það örugglega gerast. Já, já og svo ætlum við að eyða tugum milljóna meira í húsnæðiskostnað. En vonandi reddast það.

Það er alveg svakalegt að í fyrndinni skyldi einhver hafa gert þennan skelfilega húsaleigusamning. Ég ætla ekki að verja þennan skelfilega gamla húsaleigusamning, ekki gerði ég hann. En, virðulegi forseti, þetta eru mjög sérstök skilaboð. Þetta er mjög sérstök forgangsröðun og menn komast ekki hjá því í meiri hlutanum að bera ábyrgð á því.

Ég vek athygli á að við erum að ræða um mál, þ.e. sameiningu stjórnsýslustofnana, sem góð sátt ætti að geta verið um en það er ekki sátt um það þegar menn vinna með þessum hætti. Meira að segja þegar það kom upp, virðulegi forseti, við höfðum af því pata að verið væri að vinna hlutina með nokkuð sérstökum hætti, þ.e. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, og við báðum um að það væri skoðað. Það var ekki gert. En við fengum síðan bréf sem fór á stéttarfélagið þar sem upplýst er, virðulegi forseti, að unnið var eftir mjög sérstökum leiðum í ráðningu á starfsfólki. Svo það sé sagt eins og það kom fram í nefndinni vildi annar af forstöðumönnum þessara tveggja stofnana sem átti að sameina fá að vita hverjir hefðu áhuga á því að verða yfirmenn. Ef þeir höfðu áhuga á að verða yfirmenn áttu þeir að senda ferilskrána sína, 13 einstaklingar, sem í kjölfarið höfðu auðvitað vitað að hann ætlaði að taka viðkomandi aðila í viðtal um störf sem ekki var búið að skilgreina hjá stofnun sem ekki var til, af einstaklingi sem var ekki yfirmaður í stofnun sem var ekki til. Þetta er nýja Ísland.

Virðulegi forseti. Hér var spurt: Hvernig mundir þú vilja gera þetta? Það kom mér svolítið á óvart að fá þessa spurningu, mér finnst þetta svo augljóst. Ef menn telja að það sé ekki nokkur leið að auglýsa þessar stöður, að það séu slík málefnaleg rök að ekki megi auglýsa þau þannig að allir geti sótt um, þá finnst mér lágmarkið að auglýsa störfin innan stofnunarinnar svo að þeir aðilar sem sækja um störfin fái þann eðlilega framgang sem við þekkjum og þar á meðal rökstuðning fyrir því ef þeir fá ekki viðkomandi störf. Þetta eru þær upplýsingar sem við fengum hjá forstöðumönnum eða framkvæmdastjóra BHM að væri eðlilegi farvegurinn í þessu.

Mér finnst svolítið sérstakt, virðulegi forseti, að mér finnst liggja í orðunum hjá hv. þingmönnum meiri hlutans að vegna þess að við erum að ræða þessa hluti yfirleitt þá séum við að koma á óróa hjá starfsfólki. Nú hefur það komið fram að það er órói hjá starfsfólkinu. (Gripið fram í.) Nema hvað. Eiga menn von á því þegar gengið er fram með þessum hætti að eitthvað annað gerist? Og ef menn tala um óvissu, hverjir eru að ýta undir óvissu? Það eru hv. þingmenn stjórnarliðsins sem segja alltaf að þetta sé fyrsta skrefið. Einhver kynni að segja að þessi tvö ár frá hruni, og hefði ekki þurft hrunið til, hefði átt að nýta þannig að menn færu yfir þessa hluti, nýttu þau gögn sem eru til staðar til að fara í nauðsynlegar og skynsamlegar sameiningar og síðan geta menn unnið eftir því. Nei, virðulegi forseti.

Hæstv. ríkisstjórn fer í þá vinnu að það er ekki enn, talandi um óvissu, komið fjárhagslegt mat á þessum hlutum. Menn viðurkenna að ekki er búið að skoða það í heild sinni að fara yfir málið, það á bara að gera í framhaldinu. Starfsmenn geta því átt von á að fleiri sameiningar verði. Nú er sameining í eðli sínu ekki slæm, alls ekki, það eru mörg tækifæri í henni en neikvæður hluti sameiningar stofnana og fyrirtækja er að því fylgir óvissa hjá starfsfólki og það er erfiður tími. Það eru því hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem hafa lagt á það áherslu að þetta sé fyrsta skrefið samkvæmt þeirra eigin mælikvörðum en með því eru þeir að ýta undir óvissuna hjá starfsfólkinu.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór vel yfir flesta þætti málsins. Ég hef tekið ákveðna þætti út og vonast svo sannarlega til að ég verði spurður út í það ef eitthvað er óljóst.