139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og skal með gleði og ánægju fara yfir þær.

Fyrst varðandi 17 árin. Ég tel að menn hefðu strax átt að reyna að finna lausn á húsnæðismálunum, það hefði átt að vera fyrsta leiðin. Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir nefndi að einhver leið hefði verið að setja eitthvað annað í þetta húsnæði. Menn hefðu átt að fara strax í það. Menn hafa haft tvö ár til að gera það.

Varðandi faglega ávinninginn, auðvitað viljum við auka hann með öllu sem við gerum. En ég sá enga úttekt á þeim þætti. Ef menn eru að vísa í skýrslu Stefáns Ólafssonar, sem ég vona að menn séu ekki að gera, og hún sé grunnurinn að þessum breytingum þá var sú vinna ekki þess eðlis að hún geti verið grunnur að hlutum eins og þessum. En væntanlega eru menn að vísa í eitthvað annað.

Varðandi eftirlitsþáttinn þekki ég það ágætlega á heilbrigðissviðinu og augljóslega er skörun hjá Lyfjastofnun sérstaklega og landlækni, jafnvel fleiri stofnunum. Ráðgjafar hafa skoðað þessi þætti, t.d. mætti nefna Lýðheilsustofnun og sóttvarnalækni og Geislavarnir ríkisins. Ef fleira getur komið inn í væri það áhugavert en það hefur ekki verið skoðað. Að minnsta kosti höfum við ekki fengið þau gögn. Ég veit ekki til þess. Við sendum öll þau gögn sem við höfðum og ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður var ánægður með að fá skýrsluna sem við sendum þeim því við vorum að reyna að upplýsa hv. nefndarmenn og höfum reynt að koma ýmsum gögnum á þá til að við gætum rætt málin vel.

Varðandi Stjórnarráðið er það ein sérkennilegasta sameining sem ég hef nokkurn tímann vitað um. Röksemdirnar sem þar lágu að baki gengu út á að sum ráðuneytin væru svo lítil að þau þyrfti að sameina. Þau einu sem voru sameinuð voru stærstu ráðuneytin en dvergráðuneytin lifa áfram. Við getum kannski rætt það í betra tómi en ég get líka alveg rætt það núna ef svo ber undir.