139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vildi eiga orðastað við hv. formann iðnaðarnefndar vegna framgangs við uppbyggingu gagnavera. Ég leitaði upplýsinga hjá fulltrúa Samtaka gagnavera og iðnaðarráðuneytinu um stöðu mála en Alþingi breytti sem kunnugt er lögum um virðisaukaskatt í desember og ruddi þar með úr vegi margra mánaða hindrun fyrir því að samningar næðust við stóra viðskiptavini um að hýsa gögn sín í íslenskum gagnaverum.

Síðan þá hefur því verið haldið fram að það strandi á frekari aðkomu stjórnvalda að málinu eða að við höfum ekki gert nóg eða gengið nægjanlega langt í desember til að tryggja uppbyggingu gagnaveranna hér á landi. En svo er ekki. Aðstæður hafa skapast fyrir íslensk gagnaver til að fara á fullt í söluferli, þ.e. að gera samninga við viðskiptavini um að geyma gögn sín í íslenskum gagnaverum. En fyrir ákveðna tegund viðskiptavina, þ.e. stóra heildsöluviðskiptavini sem selja þjónustu til þriðja aðila, væri heppilegt að breyta reglugerð á vegum fjármálaráðuneytisins þar sem gefinn er ákveðinn aðlögunartími vegna heimilisfestis. Ekki það að núverandi fyrirkomulag hindri komu þessara aðila heldur mundu slíkar reglur enn frekar bæta og skýra umhverfið hérna. Þá eru fyrirtækin í aðlögun á meðan tilraunatíminn stendur yfir um framtíð starfseminnar hér á landi, umsvif, stærð o.s.frv.

Ég vil beina þeim orðum til hv. formanns iðnaðarnefndar — um leið og ég þakka honum vasklega framgöngu í því að höggva á hnútinn sem óleystur var í desember og stóð í vegi fyrir því að gagnaverin hæfu hér starfsemi sína — að iðnaðarnefnd taki utan um þetta mál og gái hvort ástæða sé til að lýsa því yfir að breyta þurfi viðkomandi reglugerð til að tryggja að samningar náist milli íslenskra gagnavera og erlendra viðskiptavina (Forseti hringir.) og söluferlið gangi þannig fram við þessa stóru heildsöluviðskiptavini.