139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður gat um að það tókst á elleftu stundu í desember, í góðri samvinnu iðnaðarnefndar og efnahags- og skattanefndar — ég vil þakka formanni efnahags- og skattanefndar sérstaklega fyrir að hafa sent okkur málið til umsagnar, þ.e. varðandi hina rafrænu stjórnsýslu og gagnaverin — að breyta því skattkerfi sem þá var yfir í að vera eins og best gerist í Evrópu.

Ég hef fengið bréf fyrir hönd iðnaðarnefndar frá aðilum sem reka gagnaver á Íslandi og hyggjast gera það, þeir sögðu: Það var ekki spurning hvort heldur hvenær við færum og kveddum Ísland eða hvort þessu yrði breytt í þá veru sem tókst að gera þannig að við værum áfram, héldum áfram og byggðum okkur upp af meiri krafti en áður.

Það kemur mér því á óvart, það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, að einhverja reglugerð vanti varðandi heimilisfesti. Mér er það ákaflega minnisstætt að frá mörgum aðilum sem iðnaðarnefnd ræddi við kom fram að mörg af þessum stóru fyrirtækjum eru skráð á mörkuðum ef ekki öll. Það er meiri háttar mál fyrir fyrirtæki sem skráð er á kauphallarmörkuðum að ætla að fara að stofna nýtt fyrirtæki eða útibú í viðkomandi landi.

Virðulegi forseti. Það sem við Íslendingar þurfum að átta okkur á er að það eru engin landamæri í rafrænum viðskiptum eða rafrænni stjórnsýslu og við verðum að haga okkur eftir því. Eins og kom fram frá fulltrúum í fjármálaráðuneytinu á fundi iðnaðarnefndar þá höfum við síðustu árin kannski ekki fylgst nógu vel með því sem hefur verið að gerast í virðisaukakerfum hjá nágrannaþjóðunum og þurfum að laga okkur að því. En aðalatriðið er þetta: Í þessari rafrænu nútímavinnslu, grænu stóriðjunni sem við ætlum okkur að byggja upp, (Forseti hringir.) eru engin landamæri, við verðum að átta okkur á því. En hvað það varðar sem hér er getið um, um heimilisfesti og reglugerð, skal ég beita mér fyrir því að í iðnaðarnefnd munum (Forseti hringir.) við spyrja eftir þessum málum, hvort það er eitthvað örlítið sem vantar að hamra á.