139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil koma hingað upp í tilefni af umræðu um landskjörstjórn og víkja máli mínu að því hvernig í hana er skipað. Það geri ég ekki út frá sama sjónarmiði og hv. síðasti ræðumaður gerði heldur með vísan til þess sem hæstv. innanríkisráðherra og fleiri hafa sagt um það að umboð landskjörstjórnar hafi verið endurnýjað, sem það augljóslega var með kosningu héðan frá þinginu.

Það er hins vegar mjög áríðandi, í umræðu um tilnefningar héðan frá þinginu og kosningar eins og þessa, að menn haldi til haga þeirri augljósu staðreynd sem við öll þekkjum hér, en er kannski ekki eins kunnug í almennri umræðu, að þingflokkarnir tilnefna hver fyrir sig sinn fulltrúa. Þannig var það með okkur í Sjálfstæðisflokknum að við tilnefndum einn fulltrúa í landskjörstjórn og það gerðu aðrir þingflokkar. Úr þessu verður síðan einn listi sem við sameiginlega stöndum að því að kjósa á Alþingi.

Í því felst engin sérstök yfirlýsing um traust til tilnefninga annarra þingflokka. Þess vegna finnst mér hæstv. innanríkisráðherra ganga fulllangt þegar hann lýsir yfir sérstakri ánægju með að endurkjörið hafi farið fram án nokkurra mótatkvæða o.s.frv. Staðreynd málsins er sú að það hvernig tilnefnt var í landskjörstjórnina, það hvernig menn hyggjast bregðast við dómi Hæstaréttar í víðu samhengi, með því að fara að skipa hér stjórnlagaráð, með því að gagnrýna fyrst og fremst Hæstarétt sjálfan, með því að haga endurkjöri í stjórnlagaráðið með þeim hætti að dómur Hæstaréttar hefði allt eins getað verið á hinn veginn — það er verið að reyna að kalla fram ástand (Forseti hringir.) sem líkist helst því að kæra hafi aldrei farið upp í Hæstarétt og þar hafi aldrei neinn dómur fallið, og það er miður. Það er sérstaklega miður þegar sjálfur innanríkisráðherrann (Forseti hringir.) tekur þátt í því. Við eigum ekki að senda þau skilaboð frá þinginu að það sé þannig sem við viljum hafa það. Við viljum einmitt hafa það þannig að við horfumst í augu við þennan dóm.