139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla um eitt af þeim umfjöllunarefnum sem hafa verið tekin upp hér í dag, landskjörstjórnir. Það hefur reyndar verið komið inn á það frá ýmsum sjónarhornum. Hér hefur verið vakið máls á því að það sé ójöfn skipting kynja í landskjörstjórn. Það vill þannig til að um kosningu er að ræða en ekki skipun og á því er nokkur munur. Hún fer þannig fram að það eru bornir fram tveir listar. Á öðrum listanum eru þrjú nöfn og þar var skipting milli kynja tveir karlar og ein kona. Jafnara getur það ekki orðið. Á hinum listanum voru tvö nöfn og þar voru tveir karlar. Það má auðvitað taka á slíku og það getur vel verið að forseti Alþingis geti gert það.

Annað sjónarhorn í þessu máli er það sem hv. þm. Þór Saari gerði að umtalsefni og varðar það að stjórnmálahreyfingar sem eiga fulltrúa á þingi, eða þess vegna í sveitarstjórnum, eiga ekki sjálfkrafa rétt á fulltrúum í kjörstjórnum. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og hef reyndar flutt þingmál um það, að rétt sé að gera breytingu á lögum um kjörstjórnir til að tryggja það að allar stjórnmálahreyfingar sem eiga t.d. fulltrúa í sveitarstjórn eða á Alþingi geti a.m.k. átt áheyrnarfulltrúa í yfirkjörstjórnum viðkomandi kjördæma eða yfirkjörstjórn í viðkomandi sveitarfélagi til þess að þeirra raddir og sjónarmið geti komið þar fram. Ég tel fulla ástæðu til að dusta rykið af þessari tillögu.

Hvað varðar kosningu fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landskjörstjórn er þetta um það að segja: Landskjörstjórnin ákvað sjálf að víkja eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp álit sitt í máli stjórnlagaþingsins. Engu að síður var öllum ljóst og líka hér í þessum sal að þeir ágallar sem voru á kosningunni að mati Hæstaréttar voru almennt ekki á verksviði landskjörstjórnar heldur ýmissa annarra aðila. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vildum einfaldlega (Forseti hringir.) lýsa yfir stuðningi og trausti á okkar fulltrúa en ég tek eftir því að aðrir stjórnmálaflokkar hafa undirritað vantraustsyfirlýsingu á sína (Forseti hringir.) fyrri fulltrúa í landskjörstjórn. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta var ó…) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)