139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

gagnaver -- kosning landskjörstjórnar -- eldsneytisverð og flutningskostnaður o.fl.

[14:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna málefna er tengjast gagnaverum. Ég verð að segja að það var athyglisvert að hlusta á þá þingmenn Samfylkingarinnar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og Kristján Möller, ásamt nokkrum til viðbótar innan Samfylkingarinnar, sem greiddu götu gagnavera hér fyrir jól, fyrir um tveimur mánuðum, með okkur sjálfstæðismönnum og nokkrum öðrum til viðbótar. Það var hins vegar líka athyglisvert, og ég þakka fyrir þá hreinskilni sem þeir sýndu þingheimi áðan, að enn og aftur undirstrika þeir að það er í rauninni allt í hægagangi í ráðuneytunum, sérstaklega fjármálaráðuneytinu. Alltaf þegar kemur að atvinnumálum og uppbyggingu er eins og miðað sé við hægasta manninn í kerfinu. Hvar getum við fundið hægasta manninn í kerfinu til að allt verði látið fara frekar rólega í stað þess að fara af stað í uppbyggingu?

Ég hvert hv. þingmenn og iðnaðarnefnd þar á meðal til að fylgja þessu máli eftir þannig að við getum farið af fullum krafti af stað með gagnaverin. Gagnaverin með fulltingi stjórnarandstöðunnar eru í rauninni eini vísirinn að því að við séum að fara af stað af einhverjum krafti með atvinnulífið. Ekki fer það af fullum krafti annars staðar þannig að ég þakka sérstaklega þessa (Gripið fram í.) umræðu.

Að gefnu tilefni varðandi landskjörstjórn, sem ég ætlaði ekki að fjalla um hér áðan, vil ég lýsa því yfir að með tilnefningu sinni í landskjörstjórn var þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki með nokkru móti að lýsa yfir vantrausti á fyrri fulltrúa flokksins í landskjörstjórn.