139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að taka þetta mál upp í þinginu. Þetta er tímabær umræða á Alþingi Íslendinga, því miður. Það hafa fleiri skynjað og vísa ég í þingsályktunartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og átta annarra þingmanna úr þremur flokkum sem sæti eiga á Alþingi. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hv. þm. Ólöf Nordal og fleiri þingmenn hafa sýnt þessum málum verðskuldaða athygli og hvatt til aðgerða til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Nýjustu heimildir frá lögreglunni herma að skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi sé að færast í vöxt, sé orðin umfangsmeiri og brotin alvarlegri.

Hér erum við að tala um fíkniefnasölu, við erum að tala um mansal, peningaþvætti, vopnasmygl og vopnasölu og fjárkúgun af grófustu sort. Öðru hvoru fáum við innsýn í þennan ljóta heim í gegnum fjölmiðla og er ég sannfærður um að við sem hér tökum til máls tölum fyrir hönd Íslendinga almennt um að þetta er samfélag sem við ekki viljum og ætlum ekki að líða.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur nýlega gefið út hættumat vegna vísbendinga um vaxandi spennu í íslenskum undirheimum. Greiningardeild telur hættu fara vaxandi á að til átaka og jafnvel uppgjörs komi í íslenskum undirheimum þar sem tekist verði á um fíkniefnamarkaði og stöðu á öðrum sviðum skipulagðrar glæpastarfsemi. Þá er einkum horft til þess að vélhjólagengið MC Iceland hljóti viðurkenningu sem fullgild og sjálfstæð deild innan Hell's Angels og að nýr hópur íslenskra brotamanna hafi verið myndaður gagngert til að bregðast við breyttri stöðu í íslenskum undirheimum.

Þessi þróun felur í senn í sér möguleika og ógn við öryggi almennings og starfsmenn lögreglu og tollþjónustu. Íslenska lögreglan hefur um árabil fylgst vel með þróun glæpagengja á Íslandi og utan þess og gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkir hópar skjóti hér rótum. Ljóst er að efla þarf lögregluna enn frekar á þessu sviði þannig að henni sé gert kleift að fara fram með eins markvissum hætti og framast er unnt. Í því samhengi hefur verið rætt um svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir. Hef ég verið í hópi þeirra sem hafa viljað fara þar fram af varfærni og er ég enn í þeim hópi. Lögreglan hefur aftur á móti bent á að núverandi rannsóknarheimildir lögum samkvæmt séu of þröngar og torveldi henni að bregðast við aukinni starfsemi glæpahópa. Vel sé hægt að koma til móts við rannsóknarþarfir lögreglunnar til að sinna þessu verki með því að víkka rannsóknarheimildir, þó með því skilyrði að þær séu áfram veittar á grundvelli dómsúrskurðar. Á þessi sjónarmið fellst ég.

Þetta hef ég þegar kynnt fyrir ríkisstjórn, og í innanríkisráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi sem bætir rannsóknarheimildir lögreglu þannig að þær veiti möguleika á að rannsaka starfsemi skipulagðra glæpahópa sem grunaðir eru um alvarlega brotastarfsemi, ekki síður en einstaklinga.

Ég veit að þjóðin hlustar eftir því sem sagt er í þessari umræðu og einnig þeir hópar sem í hlut eiga. Mikið liggur við að þjóðin sýni samstöðu gegn glæpum og ofbeldi og að við styðjum öll rækilega við bakið á löggæslufólki sem hefur það erfiða hlutverk að sporna gegn útbreiðslu þessara glæpahópa.

Hv. þm. Ólöf Nordal beindi til mín nokkrum spurningum um starfsemi glæpahópa hér á landi. Ég mun ekki í þessari umræðu færa fram slíkar upplýsingar en vísa til þess að lögreglan hefur ákveðið að efna til fréttamannafundar á morgun þar sem hún mun gera nánar grein fyrir þessum málum og síðan hvað gert verður í kjölfarið til að hefta útbreiðslu glæpastarfsemi á Íslandi en þar stöndum við öll einhuga að baki henni, vænti ég.