139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Heimurinn er því miður ekki allur góður. Í nútímasamfélagi er eðli og umfang skipulagðrar glæpastarfsemi mjög breytt frá því sem áður var og starfsemi lögreglunnar þarf að taka mið af þessari þróun. Þeir sem stunda skipulagða glæpastarfsemi hér á landi eru bæði Íslendingar og útlendingar. Almennt ratar glæpastarfsemi sem á sér stað í nágrannaríkjum okkar einnig til Íslands og það eru mörg dæmi því til staðfestingar. Hér vil ég sérstaklega nefna mansal, en það var fjarstæðukennt fyrir stuttu að slík starfsemi mundi rata hingað til lands. Hér er líka allt of mikill fíkniefnainnflutningur og svo eru umsvif skipulagðra glæpagengja að aukast, eins og hér hefur verið gert sérstaklega að umræðuefni.

Vegna aukinnar hörku og útsmoginna aðferða sem eru notaðar við skipulagða glæpastarfsemi hafa nágrannaríki okkar öll aukið rannsóknarheimildir lögreglu. Þetta verðum við að gera líka. Slíkt mál liggur fyrir þinginu, ég er 1. flutningsmaður að því og þrír aðrir flokkar styðja það, þrír stjórnmálaflokkar hér á landi. Ég fagna sérstaklega orðum hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem kýs við þetta tækifæri að koma því sérstaklega á framfæri að hann hyggist víkka rannsóknarheimildir lögreglu. Þrír aðilar hafa sérstaklega beitt sér í þessu. Ríkislögreglustjóraembættið er búið að benda á það í greiningum sínum nokkur ár í röð að þessar heimildir vanti. Ríkisendurskoðun hefur líka í sambandi við fíkniefnainnflutning bent á að þessar heimildir vanti. Svo er í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali sérstakur kafli um að þessar heimildir vanti.

Við höfum rætt þetta lengi. Nú er lag, nú er tími til að fara í þessar aðgerðir og ég hef trú á hæstv. innanríkisráðherra, ég hef trú á (Forseti hringir.) skynsemi hans og þreki til að klára þetta mál og vinna mjög ötullega að því að taka á skipulagðri glæpastarfsemi.