139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er mín skoðun að frekari víðtækar heimildir til forvirkra rannsóknaraðferða lögreglu séu hugsanlega stórhættulegar og í rauninni ávísun á misnotkun nema mjög varlega sé farið. Um það höfum við dæmi úti um allan heim og við á Íslandi búum einfaldlega ekki í dag við það traust á stjórnsýslu og stjórnvöldum sem þarf til að slíkar heimildir séu veittar.

Það er brýnna að finna aðrar leiðir til að taka á hugsanlegri hættu sem samfélaginu stafar af starfsemi ákveðinna félagasamtaka. Það þarf t.d. að taka alvarlega til athugunar að banna starfsemina frekar en að setja einkalíf alls almennings undir. Það mál líka nota þyngri og skilvirkari dóma vegna brota þessara manna. Það gengur ekki að menn vaði hér uppi með haglabyssur og skjóti upp hurðir og gangi svo lausir nokkrum dögum eða vikum síðar. Þótt félagafrelsi sé ákveðinn og í raun órofa þáttur mannréttinda eru þess engu að síður dæmi úti um allan heim að tiltekin félagastarfsemi sé bönnuð.

Níu binda skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir okkur líka skýrt að það er miklu mikilvægara fyrir samfélagið að sporna við hugsanlegri svokallaðri hvítflibbaglæpastarfsemi en að búa til leyniþjónustu vegna mótorhjólasamtaka. Við vitum að nú þegar eru hér á svokallaðri málaskrá lögreglu á annað hundrað þúsund manns. Þetta er margfalt hærra hlutfall en var á skrá STASI, austur-þýsku leyniþjónustunnar, á sínum tíma. Þetta fólk hefur ekki hugmynd um að það er á skrá hjá lögreglunni og því er aldrei tilkynnt um það. Það er svona umhverfi sem við þurfum að lagfæra mjög rækilega.

Ég bendi í lokin á að það er starfsemi fyrirtækja og samband þeirra við stjórnmálaflokka sem hefur kostað íslenskt samfélag miklu meira en starfsemi nokkurra annarra samtaka og við skulum því fara varlega í (Forseti hringir.) að byrja á röngum enda.