139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[15:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að það er mikill þungi í þessari umræðu og það er ástæða til. Við eigum ekki að lenda í hártogi um hugtakanotkun, en þó vil ég segja að forvirkar rannsóknaraðferðir eru ekki þau hugtök sem ég kýs að nota um það sem ég er að leggja til. Ég legg til að rannsóknarheimildir lögreglunnar verði víkkaðar en á grundvelli dómsúrskurðar til að takast á við glæpahópa sem starfa samkvæmt þeim ásetningi að skaða samfélag sitt. Það er ekki bara spurningin um glæpinn eða tegund glæpanna, heldur um hópinn sem hefur þetta að markmiði sínu.

Ég þakka fyrir þessa umræðu, fyrir varnaðarorðin og fyrir hvatninguna. Ég tel að hér hafi komið fram mikil og þverpólitísk samstaða og þar með, að því er ég trúi, samfélagsleg samstaða til að Íslendingar taki saman á í þessum efnum, að við komum fram af eindrægni og fullri festu gagnvart þeim aðilum sem vilja skaða samfélag okkar. Við munum hvergi hvika í baráttu við glæpahópa og erum staðráðin í að varðveita hér réttlátt þjóðfélag og útrýma glæpum og ofbeldi eins og við framast getum.