139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa framsögu. Ég vil spyrja hann nokkurra spurninga en geri mér grein fyrir því að fagráðherrann ber síðan að mestu ábyrgð á innihaldi, framkvæmd og eftirfylgni þessarar tilskipunar.

Fyrst að stærri spurningunni, um þá umræðu sem hefur verið hér í nokkur missiri og var m.a. farið yfir af hálfu þingsins, hvort þingið eigi ekki að einbeita sér að því að koma athugasemdum á framfæri á fyrri stigum mála varðandi tilskipanir á vegum EES. Margir telja þar borð fyrir báru og að við Íslendingar getum komið á framfæri athugasemdum um hin og þessi mál. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort á einhverju stigi varðandi þetta tiltekna mál hafi legið fyrir að við hefðum þurft að koma með athugasemdir. Ég efast um að svo sé en aðalspurningin er þá: Hversu margar athugasemdir hafa verið gerðar við tilskipanir EES á fyrri stigum í þeim málum sem hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt fyrir þessu þingi? Höfum við á síðustu árum komið markvisst á framfæri athugasemdum við tilskipanir EES?

Varðandi þetta tiltekna mál langar mig til að fara aðeins inn í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og spyrja hæstv. ráðherra: Hverjir eru þessir vottunaraðilar? Gæti hæstv. ráðherra tekið dæmi um það fyrir okkar land? Til hvaða vottunaraðila er verið að skírskota? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að Neytendastofa á að annast uppsetningu á þessum traustlista. Traustlistinn inniheldur vottunaraðila. Hverjir eru þessir vottunaraðilar og hversu margir geta þeir verið? Þessa spurningu legg ég m.a. fram í því augnamiði að átta mig á öryggi þeirra sem leitast núna eftir því í ríkari mæli að nota og beita rafrænum undirskriftum.