139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst miður að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki getað nefnt vottunaraðila, en þetta er tæknilegt atriði og ég geri mér fyllilega grein fyrir því. Ég mun bara bíða hin rólegasta þar til þetta mál kemur til efnislegrar meðferðar í þinginu undir forustu efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hins vegar tek ég eindregið undir með því sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan varðandi fulltrúa þingsins í Brussel. Ég held að það sé í algjöru samhengi og samræmi við þann málflutning sem hefur verið hér á þingi, að mínu mati þvert á flokka, að það þurfi að efla þingið. Það verður m.a. gert með því að treysta sambönd þingsins við ört vaxandi vald Evrópuþingsins, m.a. í kjölfar samþykktar Lissabon-sáttmálans. Ég tek því undir með hæstv. utanríkisráðherra hvað þetta varðar og vona um leið að hæstv. forseti fylgi þessu eftir og athugi þá sérstaklega hvað hefur staðið í vegi fyrir því að þingið efli og treysti bönd sín í Brussel til þess einmitt að verja hagsmuni Íslendinga sem birtast í hinum ýmsu tilskipunum sem hingað koma, stórum sem smáum. Þess vegna ber okkur að fara í þetta sem, ég segi það enn og aftur, allir flokkar hafa verið að tala um, að efla og auka vægi þingsins.