139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um, held ég, öll þau þrjú atriði sem voru kjarni hans máls. Ég er algjörlega sammála honum um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi mjög mikið að gera. Það hafa flestir ráðherrar, flestir framkvæmdarvaldshafar.

Ég skipti mér ekki af því með hvaða hætti þingið vinnur eins og ég hef margoft sagt. Þingið ræður því sjálft hvað það gerir og ef þingið vill leggja fram frumvörp til að svara innleiðingum er það mér fullkomlega að sársaukalausu.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þingið ætti að láta sig meiru varða ýmsar þær gerðir og tilskipanir sem við erum að taka upp. Þingið getur komið að þeim lögum sem það að lokum samþykkir, og þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram, til að uppfylla ákveðin skilyrði sem þarf að gera til að fullgilding verði og full innleiðing. Hins vegar eru margar tilskipanir og gerðir innleiddar í íslenskan rétt í gegnum reglugerðir. Og þó að þingið hafi í orði kveðnu rétt og eigi í reynd að fara yfir innihald slíkra reglugerða gerist það samt ekki, gerðist a.m.k. ekki á þeim dögum sem ég var óbreyttur þingmaður.

Þessi skoðun mín er ekki ný, ég hef m.a.s. verið aðili að skýrslum þar sem á þetta er bent og eftir því óskað að þingið láti meira til sín taka. Á sínum tíma ræddu menn um að setja hér upp sérstaka Evrópunefnd í aðdraganda aðildar að EES, eins og ég held að aðrar EFTA- og EES-þjóðir hafi gert, a.m.k. ein, til að standa undir þessu rannsóknarhlutverki og gæta þar með hagsmuna Íslands.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, ég tel að a.m.k. fyrr á dögum, um miðbik þarsíðasta áratugar, upp úr aðild okkar að EES, hefði mátt koma í veg fyrir það sem ég kalla nú (Forseti hringir.) óheppilegar innleiðingar.