139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir ósk og beiðni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að forseti Alþingis setjist í forsetastól til að kveða upp úrskurð um málið vegna þess að þetta varðar mjög miklu. Með þessari þingsályktunartillögu er nefnilega verið að skora á forseta Alþingis að hann geri eitthvað ákveðið (Gripið fram í.) sem gengur þvert á og snýr við úrskurði Hæstaréttar sem varð til þess að kosningin til stjórnlagaþings er ógild.

Mér finnst ekki hægt að Alþingi skori á forseta Alþingis að sniðganga úrskurð Hæstaréttar sem er einn af þremur hornsteinum lýðveldisins. Þess vegna vil ég að hæstv. forseti sjálfur, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, kveði upp úrskurð um hvort málið sé þingtækt eður ei.