139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[15:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Úr því að búið er að skýra það, eins og við svo sem vissum, að sá er situr í forsetastóli hverju sinni er forseti Alþingis á þeim tíma, vil ég hvetja þann ágæta forseta sem nú situr að skýra okkur frá því hvort hún telji málið þinghæft. Það er reyndar rétt að búið er að samþykkja það hingað inn.

Engu að síður verð ég að segja að (Gripið fram í.) — fyrirgefðu, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, ég er að tala núna, ekki þú — að mínu viti setur það þingið niður að tillagan skuli vera komin hingað, að löggjafarvaldið fari með þessum hætti á svig við Hæstarétt. Ég horfi á þetta mál þannig, frú forseti, að hér sé farið á svig við það sem Hæstiréttur kvað upp úr með. Með þessu gerir Alþingi lítið úr æðsta dómstigi landsins. Menn geta síðan haft alls konar skoðanir á því hvernig Hæstiréttur úrskurðar eða dæmir en engu að síður er þetta niðurstaðan. (Forseti hringir.) Nú á að svindla inn einhverjum 25 aðilum sem eiga ekkert meiri rétt á því en einhverjir aðrir og það er alveg (Forseti hringir.) með eindæmum og á ekki að líðast. (ÁI: Svindla inn?)