139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[15:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur verið sagt að málið sé þingtækt vegna þess að það er komið fram og í því felist mat hæstv. forseta þingsins að það sé þingtækt og ekki ástæða til að gera athugasemdir við það.

Nú háttar hins vegar svo til að þetta er ekkert venjulegt mál. Þetta þingmál lýtur að því með hvaða hætti við viljum standa að endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar. Hér hefur verið bent á ýmsa annmarka sem vekja upp spurningar um hvort málið sé í raun og veru þingtækt. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta: Hafa farið fram umræður um þær spurningar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson varpaði fram? Vill þá hæstv. forseti greina okkur frá því hver var niðurstaðan, hvernig var tekist á við þetta? Það væri fróðlegt að heyra af forsetastóli rökstuðning hæstv. forseta fyrir því að málið sé þingtækt.