139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[16:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég tel að hér sé einfaldlega verið að bregðast við pólitískri stöðu sem er komin upp hvað þetta mál áhrærir. Það er komin ákvörðun frá Hæstarétti og það er niðurstaða þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar til að fjalla um þessi mál að eðlilegt væri að bregðast við með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég man eftir því að forseti Íslands synjaði lögum staðfestingar í fyrsta skipti 2004. Og hvað gerði þáverandi ríkisstjórn? Hún fór ekki eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar um að leggja skyldi málið þá þegar, eins fljótt og verða mætti, undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu. Hún lagði fram frumvarp um að fella þau lög úr gildi. Var það frumvarp þá þingtækt vegna þess að verið var að sniðganga ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar? Ég velti því fyrir mér hvort færa hefði mátt fyrir því rök með sama hætti. (Forseti hringir.) Ég tel að Alþingi hafi þá verið bært til þess að bregðast við (Forseti hringir.) þeirri stöðu sem þá var uppi með pólitískri tillögu (Forseti hringir.) sem var gert og hið sama á við í þessu tilfelli.