139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég velti fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðuna í hvers konar klemmu við erum komin með það merka mál sem stjórnlagaþing í rauninni er. Við getum svo haft alls konar skoðanir á því hvort það hefði átt að boða … (ÁI: Það er erfitt að heyra í ræðumanni þegar …) Það er nú erfitt að tala líka þegar hv. þingmaður er alltaf að grípa fram í. En ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að trúverðugleiki þess sem kemur út úr vinnu þeirra aðila sem verða handvaldir af Alþingi til að sitja þarna sé ekki skaðaður eða minni með því að fara þessa leið en ef kosningin hefði tekist vel hjá okkur, þar sem ljóst er að það er mikil andstaða við þetta meðal þingmanna a.m.k. og að manni heyrist meðal margra úti í samfélaginu.