139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að með þessu móti sé verið að vefengja niðurstöðu Hæstaréttar og hafa hana að engu. Ég vil nefna þrennt. Í fyrsta lagi voru kjörbréf þessa fólks afturkölluð. Í öðru lagi var ekki boðað til stjórnlagaþings 15. febrúar eins og forseta Alþingis var þó uppálagt að gera með lögum nr. 90/2010. Hvernig er hægt að uppfylla niðurstöður Hæstaréttar betur en með þessu móti? Hvernig er hægt að hlíta betur þeim úrskurði sem féll 25. janúar en að boða ekki til stjórnlagaþings og afturkalla kjörbréf? Þriðja atriðið sem er mikilvægt og tíundað í greinargerð með þingsályktunartillögunni er þetta: Það sem mestu máli skiptir er að ekki verði aftur farið með sama hætti í framkvæmd kosninga og þarna var gert.