139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að í lögum um almennar kosningar á Íslandi, stjórnarskrárbundnar kosningar, eru skýr ákvæði um hvernig bregðast skuli við ef kosning er ógilt. Það er með tvennum hætti: Með uppkosningu, þ.e. að kosið verði aftur í tilteknu kjördæmi, kjördeild eða í heild, eða með endurtalningu. Í úrskurði Hæstaréttar var ekki að finna neina leiðbeiningu um hvernig bregðast skyldi við þessari ógildingu, enda var ekki um stjórnarskrárbundnar kosningar að ræða heldur aðeins ráðgefandi stjórnlagaþing. Að mati lögfræðinga er mikill munur á því annars vegar og stjórnarskrárbundnum kosningum hins vegar, svo mikill að það bindur ekki hendur Alþingis á neinn hátt. Hér er því ekki verið að gefa fordæmi eins og hv. þingmaður vill meina. (Gripið fram í: … alþingiskosningar.)