139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að við þurfum að breyta þessu atriði. Það er eitt af því sem við þurfum að ganga í að verði öðruvísi eftir kjörtímabilið sem nú er. Þess vegna eigum við ekki að hætta í miðjum klíðum. Þess vegna eigum við að halda ferlinu áfram. Við erum búin að halda þjóðfund. Við erum búin að láta stjórnlaganefnd vinna. Við erum komin að þeim kafla í endurskoðunarferlinu þar sem við ætlum að fá fólk utan Alþingis til að fara yfir hvort tveggja og vinna frumvarp, vonandi m.a. um þær breytingar á stjórnarskránni sem hv. þingmaður nefndi um hvernig greiða á atkvæði um hina eiginlegu stjórnarskrá. Það er þetta sem við flutningsmenn leggjum áherslu á og við megum ekki hætta í miðjum klíðum.

Svo ætla ég að nota seinna andsvarið til að svara í sambandi við minnihlutaálitið í samráðshópnum.