139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla fyrst aðeins að nefna minnihlutaálit hv. þm. Birgis Ármannssonar sem sat fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í samráðshópi sem forsætisráðherra skipaði. Við töldum ekki eðlilegt að álitið fylgdi sem fylgiskjal tillögu okkar sem liggur frammi og er um allt annað efni og annars eðlis en álit hans. Ég reikna með að hv. þingmaður geri sjálfur grein fyrir áliti sínu.

Sú leið sem hv. þingmaður nefnir, að einangra breytingarnar við 79. gr. stjórnarskrárinnar, hefur ekki hlotið neinn stuðning í þinginu. Það þýðir í reynd að fresta skuli allri annarri vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar um fjögur ár. Það náðist ekki samkomulag um það síðastliðið haust. Þvert á móti náðist samkomulag um að endurskoða alla stjórnarskrána, líka 79. gr. Ég tel að við eigum að halda þeirri vinnu ótrauð áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)