139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að heyra að hv. þingmaður er mér sammála um það að Alþingi geti skipað, kosið, valið hvern sem sátt næst um í þinginu til að gegna eða sinna tilteknum störfum. Þetta er í samræmi við það sem við gerðum síðast í þinginu í þessu efni. Hér var kosin níu manna nefnd sem ber nafnið stjórnlaganefnd og hafði tilteknu hlutverki að gegna í því ferli sem við erum hér að ræða.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann telur að komið væri fyrir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar ef það væri nú svo að Alþingi hefði heimild til að skipa hvern sem er af þeim 320 þúsund hræðum sem við erum í nefnd eða stjórnlagaráð nema hina 25 sem hlutu traust í kosningunum 27. nóvember síðastliðinn. (Gripið fram í: Úrslit í kosningum.)