139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem fólk greinir á í þessum sal. Nú segja sumir að hið alvarlega í málinu sé að gengið sé á svig við ákvörðun Hæstaréttar. Ég er ekki sammála því, virðulegi forseti, það er farið að ákvörðun Hæstaréttar. Kjörbréf þeirra sem kosin voru 27. nóvember hafa verið ógilt. Stjórnlagaþing mun ekki starfa í landinu. Lögin um stjórnlagaþing verða numin úr gildi ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga. Afdrifaríkari getur ákvörðun réttarins ekki orðið.

Í framtíðinni munu þeir sem koma að kosningum vanda sig betur en þeir hafa gert hingað til. Ég þykist viss um að það eigi jafnt við um þingmenn sem setja lög, embættismenn og starfsfólk Alþingis sem aðstoða þá við lagagerð og kjörstjórnir, þar með talin landskjörstjórn, sem sjá um framkvæmd kosninga. Ég ætti kannski að geta þess að einmitt síðast í morgun fjallaði allsherjarnefnd um breytingu á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, svo við værum öll viss í okkar sök í því dæmi. Öll munum við í framtíðinni vanda okkur betur í samræmi við þær kröfur sem Hæstiréttur gerir um framkvæmd kosninga hér á landi. Þannig virðum við niðurstöðu Hæstaréttar.

Virðulegi forseti. Ekki eru allir á eitt sáttir um að halda stjórnlagaþing. Síðasta vor náðist þó allgott samkomulag um málið. Ákveðið var að skipa stjórnlaganefnd sem hefur verið að störfum frá því um mitt síðasta sumar og hefur unnið mikið verk. Allir flokkar sameinuðust um þessa ákvörðun. Ákveðið var að halda þúsund manna þjóðfund. Þeir sem sátu hann voru valdir með slembiúrtaki. Allir flokkar sameinuðust um það. Þjóðfundurinn var haldinn í haust og þótti takast vel. Ákveðið var að efna til stjórnlagaþings til að semja stjórnarskrá. Allir flokkar að Sjálfstæðisflokknum undanteknum sameinuðust um það. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði á móti stjórnlagaþinginu, aðrir sátu hjá.

Virðulegi forseti. Ég get vel fallist á að uppkosning, þ.e. endurtekning á kjördegi ef þannig má að orði komast, hefði að mörgu leyti verið eðlilegasta leiðin í þeirri klemmu sem við erum nú en þá átti að ákveða það strax og Hæstiréttur birti niðurstöðu sína. Stundum gerist það, virðulegi forseti, í lífinu að þegar ákvarðanir eru ekki teknar strax gerist eitthvað sem veldur því að þær verða ekki jafnfýsilegar eftir sem áður. Þetta á einmitt við um uppkosningu. Vegna þess að ekki var brugðist við strax stóðum við allt í einu frammi fyrir því að kjósa átti um tvo ólíka hluti á sama tíma. Margir sjá mikla annmarka á slíku fyrirkomulagi og e.t.v. ætti að taka tillit til þess.

Ljóst er að til að lagfæra lögin um stjórnlagaþing í tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem á að fara fram ekki síðar en um miðjan apríl, og ég held að búið sé að ákveða 9. apríl, hefði þurft að flýta talsvert meðferð frumvarps þess efnis í þinginu. Ég ætla að tala hreint út um það efni. Ég óttast að það hefði ekki reynst mögulegt að gera nauðsynlegar lagfæringar í tíma í ljósi þess að ekki ríkir einhugur í þinginu um stjórnlagaþing. Hvað þýddi það? Jú, einfaldlega að uppkosningunni yrði frestað. Í mínum huga hefði það jafngilt því að hinni ágætu hugmynd um stjórnlagaþing hefði verið kastað fyrir róða. Af hverju það? Í fyrsta lagi vegna þess að það er beinlínis fáránlegt að þjóð sem á í þeim peningavandræðum sem raun ber vitni haldi kosningar á tveggja mánaða fresti. Í öðru lagi tel ég að ef uppkosning fer ekki fram á fyrri hluta þessa árs sé svo langt um liðið frá hinum eiginlegu kosningum að endurtaka verði allan leikinn frá upphafi. Virðulegi forseti. Það er einfaldlega kostur sem ég vil ekki leggja til vegna þess að ég tel það jafngilda því að engin stjórnarskrá verði samin eða lögð fram á þessu kjörtímabili.

Þess vegna, virðulegi forseti, var það niðurstaða mín að leggja til þá leið sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um. Eins og ég sagði í upphafi hefur verið farið að ákvörðun Hæstaréttar. Kjörbréf þeirra sem kosnir voru hafa verið numin úr gildi með ákvörðuninni. Það er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi skipi fólk til þeirra starfa að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá. Stjórnlagaráð mun auðvitað ekki hafa sömu stöðu og stjórnlagaþing átti að hafa. Það gefur augaleið í ljósi ákvörðunar Hæstaréttar. Stjórnlagaráð og skipun þess byggir á öðrum grunni. En það er mat Alþingis að þrátt fyrir þá verulegu annmarka sem voru á framkvæmd kosninganna verði ekki dregið í efa að þeir fulltrúar sem þar náðu kjöri njóti stuðnings meðal kjósenda til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þá staðreynd ber þingmönnum á Alþingi að virða.

Stjórnlagaráðið mun verða ráðgefandi og skila tillögum að nýrri stjórnarskrá til Alþingis líkt og stjórnlagaþinginu var ætlað. Þetta hlýtur okkur öllum að vera ljóst vegna þess að svo segir í stjórnarskránni að öðruvísi verði henni ekki breytt, þ.e. að Alþingi samþykki breytingu á stjórnarskránni, þing verði rofið og nýtt þing samþykki aftur breytingarnar. Þannig segir að það eigi að vera og þannig verður það að vera.

Í tillögunni sem við ræðum hér er lagt til að stjórnlagaráðið taki m.a. til umfjöllunar, með leyfi forseta:

„Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.“

Ef stjórnlagaráðið leggur fram einhverjar tillögur um það til Alþingis verðum við á þeim tíma þegar þær liggja fyrir að taka ákvörðun um það. Við verðum jafnframt að hafa í huga að kosningar til stjórnlagaþings voru ekki stjórnarskrárbundnar kosningar sem þýðir að Alþingi hefur allt málið á forræði sínu. Enginn þeirra fræðimanna sem um þetta hefur verið spurðir hafa dregið það í efa. Ég verð að biðjast afsökunar á því, virðulegi forseti, að segja áðan að fræðimenn gætu fabúlerað. Það var vitlaus sögn og ég segi að fræðimenn geta auðvitað velt vöngum eins og annað fólk og þeir geta lýst skoðun sinni en það er okkar stjórnmálamanna að ákveða, það er okkar að ákveða hér á Alþingi.

Þess vegna finnst mér allt tal um óvirðingu gagnvart Hæstarétti ekki standast skoðun. Sumir eru einfaldlega á móti því að Alþingi útvisti, ef þannig má að orði komast, því verki að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það er allt í lagi. Sumir eru á móti því, aðrir eru á því. Alþingi hefur hins vegar ekki getað klárað það verk á meira en 50 árum sem ég held að séu liðin frá því að fyrst var skipuð stjórnarskrárnefnd. Alþingi hefur aldrei tekist að setja fram tillögu að nýrri stjórnarskrá. Vissulega hefur mannréttindakaflanum verið breytt, ekki skal gera lítið úr því. Einnig hafa verið gerðar breytingar á kjördæmum og kosningalögum en ég held að ég sé ekki mjög ónákvæm þegar ég segi að í slíkum breytingum hafi alltaf verið tekið mið af því að þeir þingmenn sem þá sátu á þingi yrðu endurkosnir við óbreytt kosningaúrslit. Þannig hefur þingmönnum fjölgað jafnt og þétt úr 52 í 63 á lýðveldistímanum.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að Alþingi hefur ekki ráðið við það verkefni að breyta stjórnskipuninni og þó ætti það að vera hverjum manni ljóst að það er nauðsynlegt. Ég vil því leggja til að við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu svo hópur þess ágæta fólks sem orðið hefur leiksoppur ónákvæmrar kosningaframkvæmdar samkvæmt ströngu mati Hæstaréttar, mati sem hafði þó engin áhrif á kosningaúrslitin sjálf, það er ekki einu sinni ýjað að því, geti tekið til starfa sem fyrst.