139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég gæti haft þessa ræðu mína ákaflega stutta. Ég gæti sagt að ástæða þess að ég hafi boðið mig fram til Alþingis eftir hrunið hafi verið sú að ég hafi haft löngun til að takast á við það sem þurfti að byggja upp, endurreisa Ísland. Og ég vildi, eins og Framsóknarflokkurinn, hafa stjórnlagaþing til að auka traust á stjórnskipuninni. Ég hefði hins vegar haldið að það væri þá rökrétt framhald þess að við mundum byggja endurreisnina á því sem við ættum traustast í landinu, á því sem þjóðin — sem menn stundum vilja fara varlega og sparlega með að tala um, og sumir vilja ekki einu sinni heyra minnst á — treystir; hún treystir lögreglunni, hún treystir dómstólum. Og ef við getum ekki byggt endurreisn Íslands á trausti á Hæstarétti er illa komið fyrir okkur. Ég veit eiginlega ekki hvert þessi umræða um stjórnlagaþing hefur leitt okkur.

Í tillögu til þingsályktunar, svokallaðri 63:0, segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýna íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Af hverju í ósköpunum getum við ekki nýtt tækifærið og gert hlutina almennilega eftir að ljóst varð að stjórnlagaþingið og kosningarnar til þess voru klúður, dæmdar ógildar af Hæstarétti? Af hverju í ósköpunum einhendum við okkur ekki í að hafa þetta verklag okkar af viti? Þessi stjórnarskrá er eitt mikilvægasta verkefni sem þarf að vinna hér á lýðveldistímanum — af hverju í ósköpunum köstum við til þess höndunum? Af hverju í ósköpunum förum við gegn niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli, sem ógilti kosninguna?

Það var margt annað að þessari kosningu, m.a. tókst ekki að virkja áhuga þjóðarinnar. Það hefði kannski þurft að eyða aðeins meiri tíma í að ræða stjórnarskrána í fjölmiðlum, hér á þingi, og reyna að örva áhuga almennings á þessum kosningum. Kannski ættum við að einhenda okkur í það og kannski ættum við að einhenda okkur í að undirbúa þetta mál mun betur en hér stefnir í.

Ég óttast dálítið þá umræðu sem hér hefur verið á síðustu dögum og virðingarleysið við þá stjórnskipun sem við höfum í dag. Sú umræða birtist með ýmsum hætti. Hún birtist til að mynda í umræðum hér í þinginu um kjör landskjörstjórnar þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsir því yfir að þar sem aðrir flokkar hafi ekki stillt upp sama fulltrúa og sagði af sér séu þeir að lýsa vantrausti á hann. Hvers lags háðung er þetta? Ég get lýst því yfir að við framsóknarmenn vorum ekki að lýsa vantrausti á okkar hæfa fulltrúa í landskjörstjórn. Landskjörstjórnin tók hins vegar á sig þetta klúður og sagði af sér til að axla ábyrgð. Það hefði kannski verið réttara að það hefðu fleiri gert og í fleiri málum.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að þetta væri pólitískt mat, það ætti að leysa vandamál með þessum hætti. Af hverju erum við að reyna að leysa svona vandamál á þennan hátt? Af hverju vöndum við okkur ekki frekar við lagasmíðina og við kynninguna þannig að meiri líkur verði á að fólk taki þátt í kosningunum svo að meiri sátt verði um að fara í endurnýjun á stjórnarskránni sem er tímabær — við þurfum að vanda okkur við það verk, það er kannski eitt mikilvægasta verkefni sem við höfum farið í á lýðveldistímanum.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur hafnað því að axla ábyrgð á að hafa brotið gegn dómum Hæstaréttar. Það er önnur mynd þess að vanvirða stjórnskipunina sem við þekkjum og þann grundvöll sem við þó virðum og þjóðin virðir og hefur sýnt sig í skoðanakönnunum.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom hingað upp áðan og talaði um að uppkosningu hefði verið frestað vegna þess að ekki væri tími til að fara yfir frumvarpið og breyta því. Á sama tíma sagði hv. þingmaður að verið væri að drífa sig í að breyta nýju frumvarpi, nýjum lögum, sem eru eins árs, um þjóðaratkvæðagreiðslur, það ætti að drífa í því. Hv. þingmaður kom líka upp í andsvari og sagði að það væri ekki líðandi að láta forsetann koma í veg fyrir eitt og láta Hæstarétt koma í veg fyrir annað. Ef þetta er hugsunarhátturinn sem fylgir endurskoðun á stjórnarskránni erum við á rangri leið. Við eigum að vanda okkur.

Við vorum ánægð með rannsóknarskýrslu Alþingis og við vorum ánægð með þingmannaskýrsluna og þingsályktunartillöguna sem við samþykktum 63:0. Við vorum meðal annars ánægð vegna þess að það fólk sem kom til aðstoðar við okkur í þeirri vinnu var talið óvilhallt og yfir gagnrýni hafið. Nú þegar það er gagnrýnt að verið sé að fara á svig við dóm Hæstaréttar og sveigja hlutina eftir hentugleikum, menn ætli bara að leysa málið pólitískt, gera menn því jafnvel skóna að þetta sama fólk megi bara hafa sínar skoðanir, það sé ekki lengur óvilhallt, hvorki hæstaréttardómarar né prófessorar við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík.

Við erum komin mjög langt út á götu glötunar ef við ætlum ekki að virða þá stjórnskipun sem við höfum, þó svo við höfum fullan vilja til að fara í endurskoðun á stjórnarskránni. Við hljótum að þurfa að virða það sem við höfum. Þannig byggjum við upp traust á stjórnskipuninni og þannig byggjum við upp traust á Alþingi. Við byggjum ekki upp traust með því að fara þannig fram að við séum bara í pólitík og tilgangurinn helgi meðalið, að við gerum bara það sem okkur hentar á hverjum tíma og látum á það reyna og verjumst síðan gagnrýni úr ræðustól eða í fjölmiðlum eins og okkur hentar.

Ég held við ættum að skoða aðrar leiðir. Ég held við ættum að gefa okkur þann tíma sem til þarf. Ég hef velt því fyrir mér við umræðurnar í dag hvort menn telji að kjörtímabilið sé útrunnið, hvort tími þeirra sem nú stjórna sé útrunninn, það sé þess vegna sem drífa eigi í þessu. Ég veit ekki betur en við séum ekki einu sinni hálfnuð á þessu kjörtímabili. Við höfum nægan tíma. Vöndum okkur við þetta verkefni. Þetta er mikilvægt verkefni. Það var klúður hvernig var að þessu staðið. Lærum af því.

Eitt klúðrið var til að mynda fólgið í því að þrátt fyrir að vel hafi tekist til hvað varðar kynjahlutfallið þá mistókst algjörlega að kjósa fólk úr mismunandi byggðarlögum þessa lands. Það mistókst líka að kjósa fólk úr mismunandi atvinnugreinum þessa lands. Það er alveg augljóst þegar litið er á hópinn.

Ég hef velt því fyrir mér hvort við ættum að fara í aðrar kosningar og jafnvel setja upp 25 manna einmenningskjördæmi til að tryggja að fólk kæmi úr öllum byggðarlögum. Ég gæti ímyndað mér að jafnvel væri hægt að vekja meiri áhuga í hverju þessara 25 einmenningskjördæma á kosningunum, af því þá þekkti fólkið í raun þá sem það væri að fara að kjósa en ekki bara úr fjölmiðlum eða úr sjónvarpinu.

Mér finnst áhugavert að við mundum ræða með hvaða hætti við gætum tryggt meiri þátttöku og dreifðari útkomu þeirra sem síðan verða kosnir til að fara yfir stjórnarskrána. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem nú voru kosnir, þar er margt frambærilegt fólk. Við héldum að það hefði verið lýðræðislega kosið þar til í ljós kom að Hæstiréttur dæmdi kosninguna ógilda. Það eigum við einfaldlega að virða. Þá eigum við að fara til baka og velta því fyrir okkur hvernig við getum gert þetta betur. Það er ekki sú leið sem hér er farin.

Ég vil minna á að í Egyptalandi þegar Mubarak fór frá lofaði hann fólkinu stjórnarskrá. Herinn sagði: Þið fáið ykkar stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Við ætlum að skipa í þann hóp. Ég trúi ekki að við ætlum að vera í sama flokki.